Loftferðir

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 15:39:55 (6660)

2004-04-23 15:39:55# 130. lþ. 101.2 fundur 945. mál: #A loftferðir# (Montreal-samningurinn, EES-reglur o.fl.) frv. 88/2004, 946. mál: #A alþjóðasamningur um loftflutninga milli landa# frv. 52/2004, GHall
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins blanda mér í málið vegna þess að eins og fram hefur komið hjá síðasta ræðumanni og hv. ráðherra verður því eðlilega vísað til hv. samgn.

Varðandi frv. til laga um breytingu á lögum um flugmálaáætlun í framhaldi af dómi EFTA-dómstólsins frá desember 2003 verð að segja að bæði ráðuneytið og ekki hvað síst Davíð Þór Björgvinsson lagaprófessor hafa unnið málið mjög faglega. Það er bæði vel unnið og rökfast og eðlilegt að þau gjöld sem hafa verið um nokkuð langt skeið sé við haldið á grundvelli varaflugvalla sem verða að vera vegna millilandaflugsins. Þess vegna væri afar óeðlilegt ef ekki væri haldið áfram greiðslum vegna þeirra.

Í annan stað vil ég nefna það sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir kom inn á varðandi Keflavíkurflugvöll. Ég get alveg tekið undir með henni að það er mikið umhugsunarefni. Ég held að það þekkist hvergi nokkurs staðar orðið, það hefur þó verið reynt annars staðar í heiminum, að sú málsmeðferð sé viðhöfð á flugvelli í millilandaflugi að rekstrinum sé skipt upp með sama hætti og gert er á Keflavíkurflugvelli. Það er mjög óeðlilegt að hagnaður af rekstri flugstöðvar skuli vera fyrir utan og alveg sér án tillits til reksturs flugvallarins sjálfs. Hér er mál sem þarf vissulega að skoða og þarf að taka upp. Ég mun leggja til að samgn. fari og heimsæki þessa merku stöð Leifs Eiríkssonar og skoði hana og starfsemina alla. Ég veit að ráðuneytið hefur þegar gert það, en þeir eiga góða liðsmenn og óeðlilegt að þetta skuli falla undir hluta af utanrrn. en samgrn. nánast ekki koma þar nálægt.

Það vekur einnig furðu að nú er auglýst ráðstefna þar sem fjalla á um flugstöð Leifs Eiríkssonar og engir aðilar í samgrn. koma þar nálægt til að fjalla um samgöngumál á Íslandi. Ég spyr: Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega að verða? Full ástæða er til þess að samgrn. taki vel til verka í þessu máli, vegna þess að málið hefur verið í umræðunni allt of lengi án þess að nokkuð hafi verið gert og er óviðunandi.

Varðandi loftferðirnar sem var komið inn á áðan er umhugsunarefni hvort tölurnar eigi að vera nefndar í dollurum frekar en í íslenskum krónum. Ég heyri það á flugfólki og þeim sem eru í ferðaþjónustunni að þeir eru nokkuð með böggum hildar yfir þessu.

En allt um það. Þetta er mál sem við munum reyna að vinna fljótt og vel og eins og ég sagði áðan eru málin mjög vel unnin og tafir eiga ekki að verða vegna vinnunnar, hún er mjög vel gerð.