Rannsókn flugslysa

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 16:14:30 (6671)

2004-04-23 16:14:30# 130. lþ. 101.7 fundur 451. mál: #A rannsókn flugslysa# frv. 35/2004, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[16:14]

Þuríður Backman:

Frú forseti. Hér er lagt fram framhaldsnefndarálit um frv. til laga um rannsókn flugslysa sem gerð hefur verið grein fyrir. Ég tel að það hafi verið mjög æskilegt að fara vel yfir málið á milli 2. og 3. umr., sérstaklega það ákvæði sem snýr að rannsóknarnefnd flugslysa og þeirri breytingu sem gerð er á nefndinni með fækkun úr fimm í þrjá. Eins er hugað að aðkomu forstöðumanns nefndarinnar að rannsókn flugslysa og hvernig greint er á milli rannsóknaraðila og annarra nefndarmanna.

Ég sagði hv. formanni nefndarinnar við 2. umr. að ég tæki undir áhyggjur núverandi nefndarmanna í rannsóknarnefnd flugslysa, að með þessari breytingu, þ.e. að fækka nefndarmönnum úr fimm í þrjá, væri hugsanlega valinn dýrari leið en farin er í dag þó að stjórnsýslulega sé þessi breyting rétt, að hafa formann nefndarinnar ekki starfsmann nefndarinnar.

Í framhaldsnefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin ræddi á fundi sínum tvö atriði sem hún fékk fyrirspurnir um eftir að hún hafði mælt fyrir nefndaráliti í 2. umr. Það fyrra var verkaskipting innan rannsóknarnefndar flugslysa og samstarf nefndarinnar og forstöðumanns og þá sérstaklega hvað varðar störf á slysavettvangi og skýrslugerð. Það var niðurstaða nefndarinnar að ákvæði frumvarpsins eins og þau eru eftir 2. umr. séu nægilega skýr hvað þetta varðar og veiti rannsóknarnefndinni jafnframt nokkurt svigrúm til að móta störf sín. Þannig útiloki ákvæði frumvarpsins ekki að nefndarmenn fari á vettvang og taki þátt í rannsókn þó svo að forstöðumaður gegni starfi rannsóknarstjóra.``

Ég tel að ef þetta er skilningur sem nefndarmenn eru sammála um, að stjórnendur geti tekið þátt í rannsókn ef þess þurfi með, þá sé það af hinu góða. Við höfum ekki svo marga sérfræðinga á þessu sviði.

Herra forseti. Ég tel að þetta frv. hafi fengið góðan undirbúning og sé vel unnið. Það var farið vel yfir það og verður í raun að láta reynsluna leiða í ljós hvort við stígum með því rétt skref. Við verðum að gefa nýju fyrirkomulagi tækifæri til að sanna sig. Ég tel að með þessari breytingu sem gerð er á 15. gr. standi þetta allt til bóta. Ég tel að við komumst ekki mikið lengra með vinnslu á þessu máli.