Málefni aldraðra

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 16:53:55 (6677)

2004-04-23 16:53:55# 130. lþ. 101.10 fundur 570. mál: #A málefni aldraðra# (hlutverk Framkvæmdasjóðs, samstarfsnefnd o.fl.) frv. 38/2004, Frsm. minni hluta ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[16:53]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Þuríður Backman) (andsvar):

Herra forseti. Ég legg alls ekki til að þetta frv. sé lagt til hliðar þar til allar þessar samstarfsnefndir hafi lokið störfum, eingöngu sá hluti sem hægt er að túlka sem aukaálag á sveitarstjórnir, þ.e. þrýsting á sveitarstjórnir með því að borga 15% af byggingarkostnaði annarra hjúkrunarheimila en byggð eru í samstarfi sveitarfélaga og ríkisins. Ég legg til að það ákvæði sé fellt út þar sem ég óttast að ef ágreiningur verður um ákvæðið þá geti það hreinlega sett samstarfsnefndir í uppnám, þ.e. þá vinnu sem nú er í gangi varðandi verka- og tekjuskiptingu sveitarfélaga og ríkis.

Vissulega er þörf á uppbyggingu. Hún er mjög brýn á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. þar sem fjöldinn býr, en hún er líka talsverð víða um land. Einnig má horfa til þess að mikið af þeim vanda sem við búum við hvað varðar þjónustu við aldraða má leysa með meiri heimaþjónustu bæði með hjúkrun og með heimaþjónustu sveitarfélaganna. En til þess þurfa bæði heilsugæslan og sveitarfélögin að fá meiri tekjur. Ég tel miklu vænlegra að leggja ríkari áherslu á heimaþjónustuna í stað þess að einblína á uppbyggingu hjúkrunarheimila.

Hér kom fram athugasemd varðandi leiguna. Ég tel að það mál muni einnig geta leitt af sér þrýsting til þátttöku sveitarfélaga.