Málefni aldraðra

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 17:00:31 (6680)

2004-04-23 17:00:31# 130. lþ. 101.10 fundur 570. mál: #A málefni aldraðra# (hlutverk Framkvæmdasjóðs, samstarfsnefnd o.fl.) frv. 38/2004, BrM
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Brynja Magnúsdóttir:

Herra forseti. Við hv. þm. Margrét Frímannsdóttir skrifum undir nefndarálit meiri hlutans en þó með fyrirvara vegna þeirrar staðreyndar, eins og kom m.a. fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman, að sveitarfélögin telja að ekki hafi verið unnið í samráði við þau og vegna þessarar 15%-klásúlu um byggingarkostnað eða ígildi stofnkostnaðar, til hvors sem horft er, sem sveitarfélög hafa gert athugasemd við. Við höfum reynt að gera það skýrara í frumvarpinu að sveitarfélög þurfi að vera samþykk byggingu hjúkrunarheimila ef þau eiga að taka þátt í kostnaði og mikilvægt er að tryggja að þetta sé unnið í algerri sátt við sveitarfélögin þar sem núna er nefnd að störfum við að skoða breytta verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga í heilbrigðisþjónustu. Endurskoðuninni sem fer fram núna er ekki alveg lokið en er hér þó yfir eins og skuggi. Því tel ég stutt í að jafnvel þurfi að endurskoða þessi lög með tilliti til niðurstöðu þeirrar vinnu. Skipting öldrunarþjónustu er nú tvískipt en niðurstaðan gæti verið önnur. Því skrifum við undir nefndarálitið með fyrirvara.