Málefni aldraðra

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 17:17:59 (6682)

2004-04-23 17:17:59# 130. lþ. 101.10 fundur 570. mál: #A málefni aldraðra# (hlutverk Framkvæmdasjóðs, samstarfsnefnd o.fl.) frv. 38/2004, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[17:17]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera stutta athugasemd við ræðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar.

Þingmaðurinn kom inn á mörg álitaefni varðandi málefni aldraðra, til að mynda breytt greiðslufyrirkomulag, að aldraðir héldu lífeyri sínum þegar þeir færu inn á hjúkrunarheimili og þeir greiddu sjálfir. Hann kom inn á mönnun hjúkrunarheimila og á inntak þeirrar þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilunum. Einnig kom hann inn á daggjöldin.

Til að forðast allan misskilning vil ég halda til haga í umræðunni að frv. sem við ræðum nú, 570. mál þingsins, varðar ekkert af þessum atriðum sem hv. þm. nefndi. Meginefni frv. og nál. sem við fjöllum um er að heimilt verði að greiða húsaleigu vegna leigu á hjúkrunarheimili fyrir aldraðra sem aðrir en ríkið hafa byggt. Frv. byggir einnig á vinnu samstarfshóps aldraðra og er hluti af samkomulagi sem var gert við þá. Meginmarkmið frv., sem ég veit að ég og hv. þm. erum bæði mjög áfram um að náist, er að flýta fyrir uppbyggingu hjúkrunarheimila. En eins og ég sagði, herra forseti, eru þau mörgu ágætu atriði sem hv. þm. kom inn á og vert er að ræða þess vegna í þennan tíma og annan alls ekki hluti af efni frv.

Mig langar líka að halda því til haga að sú brtt. sem meiri hluti heilbr.- og trn. leggur til við frv., felur í sér að hægt sé að veita undanþágu frá útboðinu. Þessi undanþága sem meiri hluti heilbr.- og trn. leggur til er einmitt hugsuð til að sjálfseignarstofnanir og félög sem þegar hafa byggt hjúkrunarheimili geti fengið samninginn um leigugreiðslur þegar það er metið þannig að það sé hagkvæmara en að láta fara fram útboð. Með undanþágunni er verið að styrkja sjálfseignarstofnanir og félagasamtök sem hafa byggt og rekið hjúkrunarheimili.