Málefni aldraðra

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 17:29:54 (6689)

2004-04-23 17:29:54# 130. lþ. 101.10 fundur 570. mál: #A málefni aldraðra# (hlutverk Framkvæmdasjóðs, samstarfsnefnd o.fl.) frv. 38/2004, Frsm. minni hluta ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[17:29]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Þuríður Backman) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Útboð eru ekki allt. Við björgum ekki öllu með útboði. Sóltún, ég hef stundum sagt Sóltúnsævintýrið, er hjúkrunarheimili sem er sannarlega tryggt fyrir þeim útgjöldum sem það verður fyrir og þeim hækkunum á launaliðum og lyfjum sem önnur hjúkrunarheimili fá ekki greiðslur fyrir. Það má kannski segja að ef hægt væri að tryggja að hjúkrunarheimilin fengju a.m.k. áætlaðan rekstrarkostnað þannig að þau stæðu undir rekstrinum væri það til bóta. Ég mæli aftur á móti ekki með því að verið sé að reikna hámarkságóða af rekstrinum inn í útboðin og reksturinn.