Málefni aldraðra

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 17:31:11 (6690)

2004-04-23 17:31:11# 130. lþ. 101.10 fundur 570. mál: #A málefni aldraðra# (hlutverk Framkvæmdasjóðs, samstarfsnefnd o.fl.) frv. 38/2004, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[17:31]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Frú forseti. Það sem gerst hefur varðandi Sóltún er um margt gott. Ég nefni t.d. að nú er farið að greiða sérstakt húsnæðisgjald til hjúkrunarheimila sem ekki var gert áður. Það er gert með tilvísun til húsnæðisgjalds sem Sóltún hefur.

Annað atriði er að þegar aldraðir fóru á sjúkrahús af hjúkrunarheimilum þá duttu daggjöldin niður. Það er farið að taka tillit til þess á hjúkrunarheimilum. Sóltún hefur að mörgu leyti verið leiðandi og opnað fjárhirslur heilbrigðisráðuneytisins til annarra hjúkrunarheimila. Það er vel og vonandi að áfram verði haldið á þeirri braut þannig að aðilum verði ekki mismunað, t.d. í lyfjamálunum.