Milliliðalaust lýðræði

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 18:34:55 (6699)

2004-04-23 18:34:55# 130. lþ. 101.21 fundur 600. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., LS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[18:34]

Lára Stefánsdóttir:

Frú forseti. Ég fagna þessari þáltill. og vil af reynslu segja að þróunin á þessu sviði hefur verið hröð. En þrátt fyrir að menn tali ævinlega um nýja tækni þá eru samt 14 ár síðan notkun netsins varð almenn hér á landi, þ.e. fyrir aðra en háskólamenn. Eftir þetta langan tíma hefur auðvitað mikil þekking mótast og menn hafa lært að vinna með þessa tækni.

Íslendingar voru lengi vel í fararbroddi á þessu sviði. Hingað komu hópar manna til að leita upplýsinga um alls kyns hagnýtingu upplýsingatækni í skólastarfi, í menntun, í fræðslu og sérfræðingar héðan voru eftirsóttir víða um heim á þessu sviði. Það var á árunum 1992--1995 sem þetta á sér stað.

Ég tel því afar brýnt að við sem þjóð sem hefur verið leiðandi á þessu sviði á margan hátt séum það einnig þegar kemur að hagnýtingu rafrænnar tækni í tengslum við íbúalýðræði.

Um áratugur er síðan ég barðist mikið fyrir því að lög yrðu aðgengileg af netinu þannig að menn gætu auðveldlega séð hvaða lög giltu í staðinn fyrir að þurfa að fara á ákveðna staði til að kaupa þau. Þegar allt er sýnilegt og ljóst verður miklu auðveldara að nálgast upplýsingar sem menn þurfa til að taka þátt í umræðum um dægurmál.

Hlutfall þeirra sem nota þessa tækni er einna hæst í heiminum hér á landi. Þar af leiðandi er kannski meiri möguleiki að þróa þessa þætti nákvæmlega hér en annars staðar. Því er brýnt, tel ég, að við stöðnum ekki á þessu sviði, förum ekki til baka til að rúlla bara í kjölfarið á öðrum, heldur verðum það sem við erum í grunninn, leiðandi á þessu sviði.

Ég hef mikla reynslu af því að fara á svona fundi í gegnum netið með fólki víða um heim frá þremur, fjórum, fimm heimsálfum þar sem fundur er afmarkaður, umræður í afmarkaðan tíma og atkvæðagreiðsla haldin um tiltekið mál. Þetta er alveg þekkt. Fundur með þegnunum er því tiltölulega auðveldur, ætti að geta verið skipulagður og atkvæðagreiðsla á margan hátt einföld á sama tíma.

Hverjir eru það sem tjá sig? Það eru þeir sem skrifa í blöð, skrifa fréttir, standa upp, tala, en ekki kannski allir þeir sem hafa sýn og skoðanir og geta þar af leiðandi tjáð sig til gagns fyrir íbúa landsins. Þar af leiðandi mikilvægt að opna nýjan möguleika eða þennan möguleika til þess að svo geti orðið.

Með upplýsingatækninni hefur aðgengi að kjörnum fulltrúum gjörbreyst. Þetta þekki ég af þeim tíma sem ég hef nýtt þessa tækni sem hefur varað í 25 ár eða á að giska það. Í seinni tíð hefur þessi tækni leitt til þess að ef eitthvað þarf að ræða þá er það hægt.

Hins vegar tala oft og tíðum menn um þetta eins og kannski einhvern leik eða eitthvað sem sumir gera, án þess að gera sér grein fyrir hversu öflugt tækið er í alvörunni. Þar af leiðandi mæli ég eindregið með að við Íslendingar nýtum okkur upplýsingatæknina til að láta íbúalýðræði og annað slíkt virka í samfélaginu.

Fyrir okkur sem búum í hinum dreifðu byggðum sem svo eru stundum kallaðar og einnig þá sem týndir eru einhvers staðar í amstri hversdagsins er Alþingi og það sem er að gerast í sveitarfélögunum stundum dálítið fjarlægt. En með þessum hætti væri hægt að færa þessa hluti talsvert nær.

Ég vil þess vegna hvetja til að þau vinnubrögð sem hér er lagt til að tekin verði upp verði virkilega skoðuð nákvæmlega, hvernig þetta er hægt og með hvaða hætti er hægt að ná albestum árangri þannig að þegnar landsins upplifi sig nær því sem er að gerast hvort heldur á sveitarfélagastigi eða landsvísu.