Milliliðalaust lýðræði

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 18:43:55 (6701)

2004-04-23 18:43:55# 130. lþ. 101.21 fundur 600. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[18:43]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Alþingi Íslendinga grundvallast á mjög gamalli hefð. Það grundvallast á lýðræðishefð sem átti sér fáar líkar í veraldarsögunni. Þingið sem háð var við Öxará byggðist í reynd á möguleika sérhvers þegns til þess að hafa bein áhrif á samfélagið sem hann lifði og hrærðist í. En þegar samfélagsmynstrið varð flóknara, krafðist meiri skipulagningar og tíðari ákvarðana var ekki hægt að viðhalda þessu formi lýðræðis. Sama þróun varð hér og annars staðar að því leyti til. Samgöngur og flóknari viðfangsefni sem kröfðust betri þekkingar gerðu það að verkum að í reynd varð nauðsynlegt fyrir samfélagið að afsala sér valdi sínu til fárra fulltrúa. Í dag er þetta gerbreytt. Við höfum í krafti internetsins kost á því að verða fullnuma í hverju því viðfangsefni sem við kjósum.

[18:45]

Sérhver borgari á jafnmikla möguleika á því að verða sérfræðingur og ákaflega vel upplýstur um hvaðeina eins og kjörnir fulltrúar. Samgöngur eru ekki lengur þrándur í götu þess að menn geti komið saman til þess að taka ákvarðanir ef því væri að skipta. Ég tel samt sem áður að beint lýðræði sé enn þá, eins og komið hefur fram í umræðunni, framtíðarsýn. Það er ekki eitthvað sem við ætlum að grípa til strax á morgun. Ég er t.d. ekki þeirrar skoðunar eins og ráða má af pistlum hæstv. dómsmrh., að með því að taka upp beint lýðræði í gegnum netið væri hægt að leggja af fulltrúalýðræðið. Raunar er ég dálítið hissa á því að hæstv. dómsmrh. skuli ítrekað hafa skrifað og talað með þeim hætti að það er engu líkara en Sjálfstfl. líti svo á að fulltrúalýðræðið sé svo gallað að það sé ekki til framtíðar setjandi.

Sú tillaga sem við þingmenn Samf. höfum hins vegar lagt fram miðar að því að bæta úr ákveðnum ágöllum þess fulltrúalýðræðis sem við búum við. Ágallarnir eru sýnilegri og dýpri á Íslandi en mjög víða annars staðar. Ástæðan er sú að hér eiga þegnarnir aldrei kost á að kjósa með beinum hætti um gagnger stjórnarskipti. Staðan er slík að það hefur aldrei komið upp að einn flokkur hafi haft meiri hluta. Það er mjög sjaldan sem í sjónmáli er möguleiki á að skipta beinlínis um ríkisstjórn með þeim hætti að það sé skýr valkostur sem taki við. Með því á ég við að stjórn taki við af ríkisstjórn mynduð af flokkum sem hafa myndað stjórnarandstöðu. Þetta þýðir að þar sem samsteypustjórnir sitja eins og hér á Íslandi er mjög erfitt fyrir kjósandann að gera því skóna að með atkvæði sínu geti hann valdið gagngerri breytingu á tiltæku djúpstæðu ágreiningsefni.

Við höfum líka, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson var svo vinsamlegur að rifja upp úr grein sem ég skrifaði í Fréttablaðið á dögunum, reynslu sem sýnir okkur að sérhagsmunir hafa gríðarlega rík tök á stjórnmálaflokkum. Ég leyfi mér, frú forseti, að taka sem dæmi þau átök sem hafa orðið um stjórnkerfi fiskveiða. Þeir tveir flokkar sem nú eru við stjórnvöl, Framsfl. og Sjálfstfl., eru að fornu og nýju rígnjörvaðir saman við helstu héraðshöfðingjana og hagsmunakóngana í sjávarútvegi og það er enginn vafi á því að t.d. í síðustu kosningum létu kóngar í útgerð mikla fjármuni renna til þessara tveggja flokka beinlínis til þess að viðhalda því stjórnkerfi sem við búum nú við í fiskveiðum. Það er enginn vafi um það í mínum huga að þessir hagsmunir gera það að verkum að það er mjög erfitt að ná fram, með tilstyrk þessara tveggja flokka, einhverjum gagngerum breytingum á stjórnkerfi fiskveiða. Af því dreg ég þá ályktun að það sé mjög erfitt fyrir kjósendur í landinu, þó að kannanir sýni að þeir séu að miklum meiri hluta á móti núverandi kerfi í fiskveiðum, að ná fram breytingum við þingkosningar. Á þessum grundvelli m.a. tel ég nauðsynlegt fyrir borgarana að eiga kost á því að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur, eiga kost á því að beita beinu lýðræði til þess að fá að hafa bein áhrif á þau mál sem eru mikilvægust í þjóðmálunum hverju sinni.

Ég hef tekið stjórnkerfi fiskveiða sem dæmi. Vitaskuld er það flókið viðfangsefni. Það er alveg ljóst að til að hægt væri að útkljá það af einhverju viti í þjóðaratkvæðagreiðslu í krafti beins lýðræðis þyrfti að skilgreina þær spurningar sem lagðar væru fyrir þjóðina mjög ítarlega. Ég tel samt að hægt sé að komast yfir það vandamál. Þar er um tæknilega útfærslu að ræða. Ég er því þeirrar skoðunar í ljósi þessa tiltekna vandamáls sem ég bregð upp til þess að spegla rætur skoðana minna á málinu að það sé mjög nauðsynlegt að skapa þjóðinni möguleika á því að viðhafa beint lýðræði. Það er hins vegar átakanlegt að t.d. Sjálfstfl. hefur lagst gegn beinu lýðræði hvað eftir annað og ef við horfum í gegnum Íslandssöguna hafa Íslendingar fyrst og fremst fengið að viðhafa þjóðaratkvæðagreiðslur um mál eins og brennivín (JÁ: Og hunda.) og hunda eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson kallar fram í og rifjar upp fræga atkvæðagreiðslu sem Sjálfstfl. í Reykjavík leyfði einu sinni að fram færi.

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé skylda okkar sem einstaks lýðræðisríkis að vera í fararbroddi á þessu sviði. Því er það svo að þegar Samf. tekur við stjórnartaumum munum við freista alls sem við getum til þess að stíga marktæk skref í áttina að beinu lýðræði. Með því á ég við tvennt: Í fyrsta lagi munum við beita okkur fyrir breytingum á stjórnarskránni sem munu gera það mögulegt fyrir tiltekinn fjölda landsmanna að kalla fram þjóðaratkvæði við ákveðnar aðstæður.

Í öðru lagi munum við verja umtalsverðum fjármunum til þess að þróa nýja tækni hér á landi sem gerir kleift að framkvæma beint lýðræði fyrir tilstilli tækninnar. Ég geri mér grein fyrir að á þessu eru enn þá ákveðnir annmarkar eins og fram kom í máli hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, en tíminn og tæknin munu yfirvinna þá. Að þessu leyti til mun Samf. brjóta í blað þegar hún tekur við stjórnartaumunum.