Kornrækt á Íslandi

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 18:58:21 (6703)

2004-04-23 18:58:21# 130. lþ. 101.18 fundur 433. mál: #A kornrækt á Íslandi# þál., Flm. ÖB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Flm. (Önundur S. Björnsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þáltill. sem finna má á þskj. 599 og varðar stöðu kornræktar á Íslandi. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að skipa fimm manna nefnd til að kanna með hvaða hætti megi stórauka kornrækt til fóðurgerðar á Íslandi, þannig að hún verði samkeppnisfær við niðurgreitt innflutt korn. Nefndin geri tillögur um hve mikið korn sé raunhæft að rækta innan lands og hvað þurfi til svo að hægt sé að stunda kornrækt sem aðalbúgrein. Þá leggi nefndin mat á hagkvæmni þess að rækta fóðurkorn á Íslandi og gildi þess fyrir atvinnulífið.

Nefndin skili tillögum fyrir 1. nóvember 2004.``

Frú forseti. Kornrækt hefur verið stunduð í áratugi á Íslandi, gengið vel og sannað sig. Miklir vaxtarmöguleikar eru í fóðurkornsframleiðslu og hefur greinin alla burði til þess að vera sjálfstæð búgrein en til þess þarf hún að verða samkeppnisfær við innflutta framleiðslu. Þannig verða kornbændur að geta selt framleiðslu sína á samkeppnishæfu verði miðað við niðurgreidda innflutta framleiðslu.

Samkvæmt upplýsingum frá Jónatani Hermannssyni, tilraunastjóra hjá RALA, hefur uppskera hér á landi undanfarin ár verið nánast jafnmikil á flatareiningu og í Noregi. Norðmenn rækta 1,1 millj. tonn af korni á ári og fullnægja kornþörf innan lands. Við notum 70 þús. tonn af korni á ári hverju fyrir kýr, svín og hænsni. Í sumar gætum við hafa ræktað 10 þús. tonn og þá er enn opinn markaður fyrir 60 þús. tonn.

Bændur landsins hafa allt síðasta ár verið mjög áhugasamir um ræktun erfðabreytts korns á vegum líftæknifyrirtækisins Orfs hf. og ekkert nema gott um það að segja. En orfsmenn hafa aldrei talað um meiri ræktun en 6 þús. ha. á ári og ekki fyrr en eftir áratug í fyrsta lagi. Ef við ræktum 60 þús. tonn í svínin og hænsnin verða það 15 þús. hektarar á ári.

Kornverð í Danmörku og væntanlega Evrópusambandinu öllu hefur verið afar lágt í nærri áratug. Bændur fá háa styrki á hvern hektara ræktanlegs lands og þar mun vera í gildi ræktunarskylda, en á móti koma útflutningsgjöld á korn ef flytja á það út fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Styrkirnir og útflutningsgjöldin vinna saman að því að halda kornverði mjög lágu innan efnahagssvæðisins og það er lægra en hið raunverulega heimsmarkaðsverð.

Mér skilst að Norðmenn hafi haldið kornrækt sinni utan við efnahagssvæðið og þar ræðst verð af framboði og eftirspurn innan lands. Þar er sem sé í gangi sama kerfið og hér er í kartöflum og var í grænmetinu þangað til í fyrra. Meðalverð til kornbænda í Noregi síðustu þrjú ár hefur verið 194 norskir aurar á kg korns. Einstakar atvinnugreinar og búgreinar verða að fá að njóta sanngirni. Það gengur augljóslega ekki að búgrein eins og kornræktin verði að þola samkeppni við innflutning á tilbúnu undirverði án þess að njóta sambærilegra kjara og samkeppnisaðilar utan lands.

Þá er að huga að samkeppnisstöðunni, ef við næðum sanngirni í skiptum við Evrópusambandið. Vandamál okkar eru tvö. Það fyrra er mikill vélakostnaður hér á landi vegna þess hve korn er ræktað í smáum einingum. Það ætti að lagast með aukinni kornrækt. Hitt er það að kornið hér er og verður sjálfsagt alltaf blautara við skurð en hjá samkeppnisaðilunum. Því verður þurrkun dýrari hjá okkur en þeim. Á móti kemur vernd fjarlægðarinnar, flutningskostnaður til landsins mun liggja nærri 6 kr. á kg. Það ætti að geta jafnað út þurrkunarkostnaðinn og heldur meira en það. Við eigum mikið land og gott sem hentar til kornræktar en er enn ónotað. Sem dæmi má nefna að á Suðurlandi einu eru um 300 þús. hektarar af ræktanlegu landi, þar af helmingur í Rangárvallasýslu. Einungis 15 þús. hektara þarf til að framleiða allt fóðurkorn fyrir innanlandsmarkað.

Bændur hafa áratugalanga þekkingu á kornrækt. Það er ekki eins og verið sé að koma einhverju á sem engin reynsla er fyrir. Jónatan Hermannsson hjá RALA upplýsir að kornræktin hafi á undanförnum árum orðið hvati að nýrri ræktunarmenningu sem hefur skilað sér í endurræktun túna, sem skilar sér m.a. í auknum afurðum búpenings. Á grundvelli þessarar ræktunarmenningar eru bændur nú tilbúnir til þess að takast á við stærri verkefni.

Í kornræktinni fer saman ný þekking og reynsla. Ný byggyrki koma fram jafnt og þétt, bæði innlend og erlend, sem gera ræktunina bæði ábatavænlegri og öruggari en verið hefur. Uppskerumagn og öryggi í ræktun er orðið svipað hér og í löndunum sem við berum okkur saman við. Bændur telja sig geta ræktað korn á sama verði og bændur í nágrannalöndunum fái þeir til þess sömu skilyrði hvað varðar styrki og tollvernd. Þar að auki er því spáð að veðurfar fari hlýnandi og það mun auka öryggi kornræktarinnar enn frekar. Aukin kornrækt skapar atvinnu í dreifbýlinu og gagnast sveitum um allt land. Hún eykur fjölbreytni landbúnaðarins og er eina búgreinin þar sem hægt er að auka framleiðslu verulega þegar í stað.

Virðulegi forseti. Hér á landi nýtur greinin lítils stuðnings og er stunduð sem hliðarbúgrein bænda sem framleiða mjólk og rækta korn fyrir búpeninginn. Bændur sem gætu stundað kornrækt sem aukabúgrein og selt öðrum eru ekki samkeppnisfærir, eins og áður hefur komið fram, því innflutt korn er nú selt á 15--17 kr. hvert kg. Þeir þurfa hins vegar að fá u.þ.b. 24 kr. fyrir hvert kg. Efling greinarinnar er þjóðfélagslega hagkvæm, bæði þegar litið er til gjaldeyrissparnaðar og landnýtingar. Hún eykur fjölbreytni atvinnulífs í byggðum landsins og atvinnumöguleika bænda að sama skapi. Um leið eru færð störf til íslenskra bænda.

Virðulegi forseti. Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til hv. landbn. Alþingis og síðari umr.