Kornrækt á Íslandi

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 19:06:59 (6704)

2004-04-23 19:06:59# 130. lþ. 101.18 fundur 433. mál: #A kornrækt á Íslandi# þál., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[19:06]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Hér er um mikið framfaramál að ræða fyrir sveitirnar í landinu. Við höfum verið að brydda upp á málefnum landbúnaðarins öðru hverju síðustu vikur, um daginn voru það menntunarmálin þar. Um þau hefur staðið eilíf umræða og jafnvel deilur um stuðning við hinar hefðbundnu gömlu búgreinar.

Í þessari góðu þáltill. hv. þm. Önundar S. Björnssonar koma fram þær stórmerku upplýsingar að kornrækt er ábyggilega einhver vannýttasta auðlind sem við Íslendingar eigum til lands, ef svo má segja, svo við undanskiljum sjóinn þar sem mikið er um vannýtt tækifæri að ræða. Þegar litið er til sveitanna og þeirra sóknarfæra sem þar er að finna og menn geta nýtt sér, sérstaklega þegar við erum að tala um að hverfa frá hinum framleiðslutengdu styrkjum og taka upp það sem kalla mætti búsetustyrki sem menn ráðstafa og nýta eftir því sem þeim hugnast, kemur kornræktin sterklega til greina sem eitt af megintækifærum bænda á næstu árum, því eins og fram kemur í greinargerð þáltill. er korn aðeins ræktað á um það bil 2.400 hekturum á Íslandi sem gefur í mesta lagi um 9 þús. tonn en Rannsóknastofnun landbúnaðarins telur ræktanlegt land sem hentar vel til kornræktar vera um 600 þús. hektara. Þær tölur ramma inn hvað kornræktin felur í sér mikil tækifæri.

Einnig væri, eins og fram kom hjá flm., mjög þjóðhagslega hagkvæmt að draga úr innflutningi á korni í einhverjum mæli og fara að rækta það þannig að menn finni fyrir því og geri það líka samkeppnishæft við það innflutta og niðurgreidda korn sem menn gefa gripunum og nýta til búræktar hvers konar. Efling greinarinnar yrði án vafa mjög þjóðhagslega hagkvæm hvort sem litið er til gjaldeyrissparnaðar eða landnýtingar því við höfum gríðarlega mikið af ræktanlegu, frjósömu og góðu landi sem gegnir ekki öðru hlutverki nú um stundir en að vera bithagi fyrir stóð og skepnur hvers konar. Það væri hægt að ná miklu meiri arðsemi út úr landinu með því að nýta það til kornræktar.

Ég vil nota tækifærið og þakka flm. fyrir að vekja athygli á þessu mikla sóknarfæri sveitanna og hlakka til að fylgja málinu eftir og ræða það frekar á Alþingi í framtíðinni.