Kirkjugripir

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 19:15:11 (6707)

2004-04-23 19:15:11# 130. lþ. 101.19 fundur 434. mál: #A kirkjugripir# þál., Flm. ÖB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[19:15]

Flm. (Önundur S. Björnsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um kirkjugripi sem finna má á þskj. 602 og varðar varðveislu kirkjugripa. Tillögugreinin er svohljóðandi orðrétt, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa fimm manna nefnd til að vinna að því að kirkjugripum í vörslu Þjóðminjasafnsins verði skilað í kirkjurnar þar sem þeir voru upphaflega eða þeir afhentir söfnum heima í héraði. Nefndin hugi m.a. að því hvaða munir gætu stuðlað að menningartengdri ferðaþjónustu á viðkomandi stað.``

Frú forseti. Listbúnaður í kirkjum er mikilvæg umgjörð alls helgihalds. Kirkjur hafa eignast dýrmæta gripi sem fólk hefur gefið af góðum hug. Gripirnir auðga kirkjurnar, bæði í augum sóknarbarna og ferðamanna. Áður fyrr, einkum í lok nítjándu aldar og á fyrri hluta tuttugustu aldar, voru margir merkir gripir teknir úr kirkjum og settir á söfn þar sem þeir hafa verið varðveittir. Allt frá upphafi 20. aldar hafa aðilar á vegum Þjóðminjasafnsins safnað eða jafnvel numið á brott muni sem kirkjur víða um land hafa átt. Mörgu hefur verið bjargað með því móti, ekki síst þar sem flestar kirkjur voru vanbúnar til að varðveita dýrmæta listgripi. Nú er öldin önnur, núorðið eru kirkjur yfirleitt vel byggðar og þeim vel við haldið, þeirra er yfirleitt vel gætt og vel hugsað um kirkjugripina. Ýmsir kirkjugripir hafa mikið aðdráttarafl og fólk vill njóta þeirra í réttu umhverfi. Æskilegt er að greiða fyrir því að gripir sem varðveittir hafa verið á söfnum komist aftur á upprunalegan stað óski heimamenn þess og verði því við komið á annað borð.

Ég leyfi mér að nefna tvö dæmi sem mér eru tengd. Í kirkjugarðinum á Breiðabólsstað í Fljótshlíð hvar ég gegni embætti sóknarprests er minningarmark á leiði séra Tómasar Sæmundssonar Fjölnismanns sem þar var prestur skömmu fyrir miðja 19. öld. Minningarmark þetta er gert af fíngerðum gljúpum brúnsteini frá Borgundarhólmi og er 130 sentímetrar á hæð fyrir utan 30 sentímetra sökkulstein. Í steininum voru greyptar fjórar lágmyndir höggnar í marmara af hinum merka danska myndhöggvara Herman Vilhelm Bissen að talið er. Minningamarkið létu Fjölnisfélagar séra Tómasar gera eftir að hafa efnt til samskota. Steinn þessi lá í nokkur ár tilbúinn í Danmörku vegna þess að ekki var til fé fyrir flutningi og enn lá hann í nokkur ár á Eyrarbakka áður en unnt var að flytja hann að Breiðabólsstað. Hann var síðan fluttur einn harðindavetur á ís við mikið erfiði og komið fyrir á núverandi stað.

Skemmst er frá því að segja að um 1930 lét þáverandi þjóðminjavörður fjarlægja lágmyndir Bissens af steini þessum og setja eirafsteypur lágmyndanna í staðinn. Mun þetta hafa verið gert vegna ótta um að marmaramyndirnar veðruðust og eyddust. En nú er svo komið að eirafsteypurnar hafa leyst upp og frá þeim liggja ljótir taumar sem sigið hafa inn í steininn og skemmt hann varanlega. Við þetta er því að bæta að þrátt fyrir eftirgrennslan á Þjóðminjasafni hefur reynst ómögulegt að fá upplýsingar um hvar lágmyndir Bissens eru niður komnar þótt svo lesa megi grein eftir Halldór J. Jónsson í Árbók Hins íslenska fornleifafélags að myndirnar séu nr. 22--25 í höggmyndasafni Þjóðminjasafnsins. Sem gefur að skilja væru þær betur komnar sýnilegar á sínum heimaslóðum á Breiðabólsstað en ósýnilegar almenningi á Þjóðminjasafninu.

Annað dæmi má nefna frá sama stað, reyndar öndverðs eðlis. Kaleikur Breiðabólsstaðarkirkju er talinn vera ekki yngri en frá árinu 1397. Hann er hinn ágætasti gripur sinnar tegundar hér á landi og þótt mun víðar væri leitað. Ýmsar sögur eru til af kaleiki þessum sem lesa má m.a. um í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Sumir telja hann frá álfum kominn, en lækningamáttur er talinn fylgja kaleik þessum þeim til handa sem af honum bergja. Mikið er um að fólk leggi leið sína að Breiðabólsstað til þess að fá að bergja af kaleiknum og njóta þannig altarissakramenta um leið og það á sína hljóðu bæn frammi fyrir altari Drottins.

Ítrekað hefur verið reynt að ná kaleiknum úr höndum kirkjunnar í gegnum aldirnar en þar hefur Þjóðminjasafnið reyndar minnst átt hlut að máli. Aðallega voru það Bretar, t.d. Collingwood þegar hann var hér á ferð og British Museum eða breska þjóðminjasafnið sem mun hafa gert út leiðangra hingað til lands til að kaupa gripinn. Kaleikurinn er sem sagt enn á Breiðabólsstað og í fullri þjónustu Guðs við menn.

Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort líklegt væri að fólk mundi leggja leið sína á Þjóðminjasafnið eða eitthvert annað safn til að bergja af þessum merka kaleik. Heldur verður það að teljast hæpið.

Um helgi- og listgripi kirkna segir dr. Sigurbjörn Einarsson biskup í bókinni Haustdreifar, með leyfi forseta:

,,Íslendingar hafa á sumum sviðum verið furðu hirðulausir og slysagjarnir í meðferð arfhelgra verðmæta. Og þegar menn fóru að skilja að kirkjugripir geta verið ómetanlega dýrmætir, varð stefnan sú að svipta þeim úr augsýn fólksins og hrúga þeim saman á einum stað, á safni í Reykjavík. Segja má að þetta hafi verið ill nauðsyn. Án efa hafa munir með þessu móti bjargast úr klóm erlendra og innlendra kirkjuræningja og úr loppnum lúkum umsjármanna, fátækra jafnt að augum og smekkvísi. Það ber að þakka. En stefnan er röng allt um það og fráleit nú á dögum. Nothæfir kirkjulegir listmunir frá fyrri tíð eiga sem flestir að varðveitast í kirkjum, þeim til nota og yndis, sem þangað koma og þeir eru stórum fleiri en hinir, sem sækja söfn sér að gagni. Það hlýtur að vera hin eina eðlilega, opinbera stefna, að helgidómar landsins njóti þeirrar virðingar og aðhlynningar, að dýrgripir sem þeim hafa verið lagðir af góðum hug og menningarlegum metnaði, fái að vera þar óhultir og gegna með því sínu rétta hlutverki.``

Einnig má í þessu sambandi benda á að Björn Th. Björnsson listfræðingur fjallar um afmarkað tengt mál í greininni Dæmið Bessastaða í afmælisriti Vigdísar Finnbogadóttur, Yrkju. Hann er sama sinnis og dr. Sigurbjörn Einarsson og margir fleiri.

Ég vil taka það fram að ég lít á þessa tillögu sem upphaf að enn frekari sókn til að innkalla þá gripi sem með einum eða öðrum hætti hafa verið teknir úr eða frá kirkjum landsins. Næst mun þess verða óskað að Danir skili öllu því sem þeir hafa af okkur hirt um aldirnar.

Frú forseti. Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til menntmn. Alþingis og 2. umr.