Kirkjugripir

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 19:27:38 (6709)

2004-04-23 19:27:38# 130. lþ. 101.19 fundur 434. mál: #A kirkjugripir# þál., LS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[19:27]

Lára Stefánsdóttir:

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með till. til þál. frá hv. þm. Önundi S. Björnssyni um kirkjugripi. Það er mikilvægt að sérstakir listmunir kirkjunnar sem eru í góðu ástandi og hægt að hugsa vel um í þeirri kirkju sem þeir tilheyrðu séu staðsettir í viðkomandi kirkju fyrir þá sem kirkjuna sækja til að njóta og nýta eftir því sem ástæða er til. Þeir listmunir sem hafa verið gerðir fyrir kirkjur landsins með mikilli fyrirhöfn og stundum af litlum efnum eru gerðir fyrir þá sem sækja kirkjuna, fyrir heimamenn, fyrir ferðamenn, fyrir þá sem koma, en ekki til að geyma annars staðar.

Einn gripur sem sárt er saknað úr sinni heimabyggð er svokallaður Grundarkaleikur úr Grundarkirkju í Laugalandsprestakalli í Eyjafjarðarprófastsdæmi sem þykir mikill dýrgripur frá 15. öld og er nú í Þjóðminjasafninu. Sóknarprestur í Grundarþingi, séra Hannes Örn Blandon, fór fram á að fá gripinn lánaðan. En þrátt fyrir þó nokkra eftirfylgni fékkst slíkt leyfi ekki frá Þjóðminjasafninu. Hins vegar þegar páfinn kom í heimsókn til landsins notaði hann kaleikinn og þótti heimamönnum nokkuð súrt í broti að fá gripinn ekki lánaðan en kaþólski páfinn gæti hins vegar fengið afnot af gripnum þegar hann kom í heimsókn.

Annar hlutur er alabasturstafla eða altarisbrík, skápur líklega frá 14. öld sem talinn er nokkur gersemi og tilheyrir Munkaþverárkirkju, líka í Eyjafjarðarprófastsdæmi, var látinn af hendi 1844 til danskra yfirvalda. Nú er altarisbríkin á lager í Danmarks National Museum engum til gagns eða yndisauka. Heimamönnum þykir þetta nokkuð sárt og hafa bent á að Danir séu nú að skila kirkjugripum til Færeyja og því sé ákjósanlegt að sækjast eftir því að gripir sem tilheyrðu íslenskum kirkjum rati heim aftur. Því er mikilvægt að hlutast sé til um að fá kirkjugripi sem nú eru í Danmörku í geymslum engum til gagns eða yndisauka heim til Íslands í þær kirkjur þaðan sem þeir koma.

Við vitum öll hvert aðgengi íslensku þjóðarinnar hefur verið að Þjóðminjasafni Íslendinga undanfarin ár. Auðvitað ber að fagna því að safnið mun opna nú í haust glæsilegra en fyrr. Hins vegar vekur það ekki traust á því að varðveisla kirkjugripa í Þjóðminjasafni sé öflugri en í þeirri kirkju sem þeir tilheyra þegar þess er ekki gætt að halda því húsnæði þar sem gripirnir eru geymdir í þokkalegu ástandi svo loka þarf safninu um langt árabil til að koma því í nothæft ástand aftur.

Auðvitað er hárrétt hjá hv. þm. þegar hann nefnir að gæsla, umsýsla og umönnun þessara gripa þurfi að vera næg. En þess ber að geta að kirkjur landsins hafa sýnt mikinn metnað við að gæta gripa sinna. Oft eru þetta fjársjóðir kirkjunnar sem allir sem einn standa vörð um og gæta þess að þeim sé viðhaldið eins og nauðsynlegt er og þeir varðveittir eins og þarf. Þessir kirkjugripir eru því kærastir þeim sem þeir tilheyra. Því hvet ég til þess að hæstv. ríkisstjórn vinni að því að kirkjugripum sem nú eru í vörslu Þjóðminjasafnsins verði skilað aftur heim til þeirrar kirkju þar sem þeir voru upphaflega. Einnig hvet ég til þess að unnið verði að því að ná heim gripum sem eru í dönskum geymslum engum til gagns og ánægju.