Fyrirætlan þingmeirihlutans um afgreiðslu mála

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:06:01 (6719)

2004-04-26 15:06:01# 130. lþ. 102.1 fundur 497#B fyrirætlan þingmeirihlutans um afgreiðslu mála# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég held reyndar að þetta hafi verið alveg tímabær spurning hjá hv. þingmanni. Það er ljóst að ríkisstjórnin mun leggja áherslu á að fá allmörg mál samþykkt sem verulega þýðingu kunna að hafa og þurfa töluverða umræðu. Þingflokkarnir hafa báðir tveir samþykkt nú fyrir stundu frv. er varðar fjölmiðla í landinu sem ég geri reyndar ráð fyrir að verði verulegur stuðningur við í þinginu miðað við þær umræður sem hér hafa orðið á undanförnum árum.

Engu að síður tel ég nauðsynlegt að eiga um það góðar umræður og því held ég að rétt sé að gera ráð fyrir því að þingið geti dregist töluvert fram eftir maí en ég þori ekki alveg að segja til um það hversu langt það verður, enda er ég sammála hv. þingmanni að um það eiga menn að ráðgast saman á vettvangi þingsins. Af hálfu ríkisstjórnarinnar get ég sagt að við þurfum örugglega lengri tíma en um hefur verið rætt og ég hef reyndar tekið eftir því í umræðum undanfarinna vikna að ýmsir þingmenn hafa talið betra að þingið stæði lengur en skemur.