Frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:11:23 (6724)

2004-04-26 15:11:23# 130. lþ. 102.1 fundur 498#B frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að stilla mig um að svara þeim, ég vil segja nánast, fúkyrðum sem hæstv. forsrh. lét yfir mig ganga sl. föstudag, reyndar að mér fjarstaddri vegna veikinda, um að ég væri að tjá mig um skýrslu sem ég hefði ekki séð. Ég verð samt að segja af þessu tilefni að hæstv. forsrh. getur sjálfum sér um kennt þegar hann býður upp á það ástand að hafa skýrslu í umræðunni vikum saman sem lekur út úr hans eigin ríkisstjórn og býður upp á það að fjölmiðlar leggi spurningar fyrir fólk, fyrir stjórnmálamenn og aðra sem vilja taka þátt í þeirri umræðu, sem eru ekki byggðar á staðreyndum. Samt virðist mér, virðulegi forseti, eftir lestur þessarar skýrslu sem allt standist sem ég og margir fleiri hafa sagt um það mál, m.a. um þennan þátt sem snýr að afturvirkni og ég spurði hæstv. forsrh. um.

Ég tel nefnilega mjög mikilvægt að ríkisstjórnin gangi úr skugga um þetta og það svar nægir mér ekki sem hæstv. forsrh. gaf í fjölmiðlum í gær, að auðvitað sé sú leið alltaf opin að menn geti bara leitað réttar síns fyrir dómstólum. Ég spyr: Er svo komið fyrir hæstv. ríkisstjórn að henni sé alveg sama þótt hún brjóti stjórnarskrá?