Fyrirætlan ríkisstjórnarinnar í skattamálum

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:15:15 (6728)

2004-04-26 15:15:15# 130. lþ. 102.1 fundur 499#B fyrirætlan ríkisstjórnarinnar í skattamálum# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Sjálfstfl. lofaði því áður en þing kæmi saman nú í haust að lögð yrði fram áætlun um hvernig staðið yrði að því að efna 25 milljarða króna skattalækkunarloforð flokksins. Engin áætlun var lögð fram eða frv. til að fylgja þeim loforðum eftir og vísað í að ákvörðun yrði tekin í tengslum við kjarasamninga. Það hefur lítið sést af þessum skattalækkunum. Þannig hefur til að mynda hvorki matarskattur verið lækkaður né tekjuskattur einstaklinga né heldur barnabætur hækkaðar.

Eins og fram hefur komið hækkuðu þess í stað skattar m.a. um 1.200 millj. í formi bensíngjalds og framlengdur var hátekjuskatturinn. Þegar hæstv. forsrh. gerði grein fyrir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga í byrjun síðasta mánaðar greindi forsrh. frá því að með nýjum kjarasamningum sköpuðust skilyrði til þess að áform ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir gætu náð fram að ganga. Svörin sem þinginu voru þá gefin voru óljós um hvenær vænta mætti þessara skattalækkana.

Nú er liðinn 11/2 mánuður frá því að sú yfirlýsing kom fram hjá hæstv. forsrh. og hóflegir samningar hafa verið gerðir hjá stærstu aðilum á almenna vinnumarkaðnum. Samkvæmt áætlun þingsins er stutt í þinglok þótt þau geti svo sannarlega frestast, eins og hér hefur komið fram, ef ætlan ríkisstjórnarinnar er að knýja fram umdeilt fjölmiðlafrumvarp. Því vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hvað líður undirbúningi ríkisstjórnarinnar við að leggja fram frumvörp um boðaðar skattalækkanir? Er von til þess að þau verði lögð fram á yfirstandandi þingi? Það er ljóst, herra forseti, að það er ekki bara stjórnarandstaðan sem kallar á efndir ríkisstjórnarinnar í þessum efnum því að hv. þm. Gunnar Birgisson hefur lýst því yfir að hann neiti að yfirgefa Alþingi fyrr en búið er að afgreiða skattamálin.