Íþróttaáætlun

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:24:24 (6736)

2004-04-26 15:24:24# 130. lþ. 102.1 fundur 500#B íþróttaáætlun# (óundirbúin fsp.), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Gunnar Örlygsson:

Herra forseti. Fjórða spurningin var þess efnis hvort rannsóknir væru í bígerð á vegum ráðherra um gildi íþrótta á íslenskt samfélag í félagslegu og efnahagslegu tilliti. Það hefur verið til umræðu í þinginu margoft, sérstaklega þegar kemur til fjárlagaumræðu á hverju hausti, hversu útgjaldafrekur sá liður er er telur til heilbrigðismála í landinu. Á síðustu 10 árum hafa útgjöld til heilbrigðismála aukist um 100%. Þegar kemur að þeirri umræðu almennt í þinginu er það yfirleitt hreimur stjórnarliða að frekar beri að leggja fram fyrirbyggjandi aðgerðir en að elta endalaust þá hundaól sem kostnaður í heilbrigðiskerfinu er. Því spyr ég:

Eru rannsóknir í bígerð á vegum ráðherra um gildi íþrótta á íslenskt samfélag í félagslegu og efnahagslegu tilliti? Hefur ráðherra í hyggju að taka upp íþróttaáætlun til nokkurra ára?