Fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:31:11 (6740)

2004-04-26 15:31:11# 130. lþ. 102.1 fundur 501#B fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi# (óundirbúin fsp.), Flm. AKG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Ég tek þessi mál hér upp við hæstv. menntmrh. vegna þess að það kemur ítrekað fram í fjölmiðlum landsins að skólameistarar á Íslandi eru mjög áhyggjufullir vegna hinnar fyrirsjáanlegu fjölgunar í framhaldsskólanum í haust. Þeir telja sig væntanlega þar með ekki hafa fengið tryggingu fyrir því hjá menntamálayfirvöldum að þeim verði tryggt fjármagn til þess að taka við öllum þeim nemendum sem sækja í skólana. Það er því brýnt að fá skýra og skorinyrta yfirlýsingu frá hæstv. menntmrh. um að hún muni fara fram á auknar fjárveitingar frá Alþingi til reksturs framhaldsskólanna. Eins og Samf. benti á við umræður um fjárlög fyrir yfirstandandi ár vantar fjármagn til framhaldsskólanna miðað við fyrirsjáanlega fjölgun.