Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 16:02:37 (6747)

2004-04-26 16:02:37# 130. lþ. 102.32 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki tilefni til langra ræðuhalda af minni hálfu um frv. Það felur í sér algerar lágmarksbreytingar á annars vegar lögunum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lögunum nr. 47/1993, og hins vegar breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem hafa það eitt efnisinnihald að undanskilja nýju aðildarríkin að Evrópusambandinu frá hinum sameiginlega vinnumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta er nauðsynlegt til þess að tveggja ára aðlögunartími sem íslensk stjórnvöld hafa nú ákveðið að taka sér hið minnsta hafi trausta stöðu í lögum. Ella mundu þessi ríki sjálfkrafa öðlast þann rétt sem fylgir aðild að Evrópska efnahagssvæðinu sem aftur leiðir af stækkun Evrópusambandsins.

Þegar till. til þál. um að samþykkja stækkun Evrópusambandsins og þar með stækkun Evrópska efnahagssvæðisins var hér til umfjöllunar hafði ég fyrirvara á um stuðning við hana og hann tengdist m.a. því atriði sem hér er til umfjöllunar, þ.e. með hvaða hætti Ísland hyggist nú taka sér þennan tveggja ára aðlögunartíma. Ég hef gagnrýnt hvernig Norðurlöndin hafa staðið að verki í þessum efnum, öll með tölu, að undanskildu þó helst Finnlandi sem kom hreint til dyranna og gaf það upp strax í byrjun að Finnar mundu a.m.k. taka sér tveggja ára aðlögunartíma áður en þeir opnuðu vinnumarkað sinn fyrir nýju aðildarríkjunum og voru þá einkanlega með í huga nágrannaríkin handan Eystrasaltsins.

Annars staðar á Norðurlöndunum, þar á meðal á Íslandi, létu menn lengi vel í veðri vaka að ekkert annað stæði til en að opna vinnumarkaðinn frá fyrsta degi. Það er ekki fyrr en langt er liðið á síðasta ár sem fer að örla á umræðum um að eitthvað annað standi til, löngu eftir að nýju aðildarríkin hafa samþykkt inngöngu sína í Evrópusambandið í góðri trú um að við fyrirheit um fulla aðild þeirra yrði staðið. Nokkrum mánuðum áður en stækkunin sjálf á að ganga í gildi, þ.e. 1. maí nk., innan fárra daga, er loksins verið að taka hér í gegn ráðstafanir til að hrinda í framkvæmd tveggja ára aðlögunartíma að því að gera þetta að sameiginlegum vinnumarkaði. Það er ansi seint í rassinn gripið. Eðlilega er mikil gremja í mörgum nýju aðildarríkjunum yfir því hvernig þessi mál hafa þróast. Í aðdraganda stækkunarinnar og atkvæðagreiðslna um hana í þessum ríkjum var ekki annað gefið í skyn af hálfu velflestra Evrópusambands- og EES-ríkja en að þau mundu njóta fullra réttinda hvað vinnumarkaðinn snerti strax frá fyrsta degi. Það voru fyrst og fremst Finnar, Þjóðverjar og kannski Austurríkismenn sem gerðu grein fyrir því að þeir kynnu að taka sér aðlögun. Síðan hafa ríkin eitt af öðru bæst í hópinn og nú síðast Norðurlöndin, öll með mismunandi hætti að vísu. Að forminu til beita Danir annars konar takmörkunum en þeim að beita fyrir sig tveggja ára ákvæðinu en það kemur út á eitt.

Að mínu mati hafa menn notað tímann illa til að undirbúa þær mikilvægu breytingar sem verða með því að þessi lönd í Austur-Evrópu verða aðilar að hinum stóra sameiginlega vinnumarkaði Vestur-Evrópu, Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Það hefði mátt standa mun betur að málum hvað það varðar að aðstoða Eystrasaltsríkin, Pólland og önnur sem hér eiga í hlut við að þróa og skipuleggja vinnumarkaðsstofnanir sínar, bæði verkalýðshreyfingu og atvinnurekendasamtök, sem eru afar losaralegar og bágbornar. Tíminn hefur þar farið mikið til spillis. Öllum hlýtur að vera ljóst að það er ákaflega mikilvægt að þessar breytingar takist farsællega og að ekki verði mikil röskun eða ójafnvægi á báðum endum, hvort sem heldur lýtur að vinnumarkaðnum hér eða í þeim löndum sem eru að gerast aðilar. Það getur snúið aftur að flutningi fyrirtækja þangað og öðru í þeim dúr.

Ég hef áður, herra forseti, gert grein fyrir viðhorfum mínum í þessum efnum og viðleitni, m.a. til að fá þessi mál á dagskrá á norrænum vettvangi og einhverjar sameiginlegar aðgerðir af hálfu Norðurlandanna sem auðvitað hefðu verið árangursríkastar ef Norðurlöndin hefðu stillt saman strengi og sameiginlega tekið á og aðstoðað grannríki sín í þessum efnum. Þar er mjög mikið verk að vinna, eins og sést best ef skoðaðar eru tölur um félagsaðild að verkalýðshreyfingum og sú staðreynd að atvinnurekendasamtök eru ýmist alls ekki til staðar eða ákaflega veikburða á mörgum sviðum í þessum löndum. Sérstaklega á það við um Eystrasaltsríkin og Pólland. Það eru jú einmitt þau lönd sem helst horfa norður og vestur á bóginn. Samkvæmt skoðanakönnunum liggur fyrir að hátt hlutfall ungs fólks hefur í hyggju að láta reyna á möguleika sína þegar hinn sameiginlegi vinnumarkaður opnast. Þarf engan að undra í ljósi þess gríðarlega munar sem er á launum og lífskjörum þessara ríkja.

Þessa fyrirvara, virðulegi forseti, vildi ég slá. Ég vil líka segja að mér vitanlega eru engar tryggingar færðar fram fyrir því að sami leikurinn endurtaki sig ekki að tveimur árum liðnum. Engin sérstök stefna hefur verið mótuð um það hvað menn gera þegar dregur að lokum fyrsta tveggja ára tímabilsins en ef menn kjósa að beita ýtrustu möguleikum gæti það orðið samtals í sjö ár sem vinnumarkaðurinn væri meira og minna lokaður fyrir nýju aðildarríkjunum. Ég hygg að þá yrðu flestir að viðurkenna að þá væri talsvert annað upp á teningnum en látið var í veðri vaka þegar verið var að gylla væntanlega aðild að Evrópusambandinu fyrir þessum ríkjum.