Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 16:15:01 (6751)

2004-04-26 16:15:01# 130. lþ. 102.32 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kann vel að meta góðan vilja þess hv. þm. sem nú stýrir félmn. Ég er honum þakklátur fyrir að segja að málið verði tekið fyrir með jákvæðum huga og ég treysti því þá að hann geri það á þeim tíma sem hann stýrir nefndinni.

Ég lít hins vegar svo á að það væri blettur á okkur ef þingið afgreiddi ekki málið með einhverjum hætti í ljósi þess að það verktakafyrirtæki sem hefur sætt mestu ámæli fyrir að hafa notfært sér starfsmannaleigur --- og sem ég tel að ekki hafi alltaf farið að því sem rétt er --- hefur áfellst þingið fyrir vinnubrögð sín. Það hefur ekki bara áfellst okkur sem lögðum fram þessa tillögu heldur þær reglur sem þingið hefur sett sér og sem er framfylgt af hæstv. forseta. Ég leit svo á að þeirri skammadembu sem dundi á mönnum fyrir nokkrum dögum af hálfu þessa fyrirtækis væri ekki aðeins beint að okkur sem lögðum fram frv. heldur þinginu sjálfu. Ég vísa nú til þess að hið ágæta dagblað sem gefið er út hér í borg, Morgunblaðið, benti á þetta í leiðara. Því fannst ástæða til að taka á þessu fyrirtæki sökum þess með hvaða hætti það lagði brandi sínum gegn þinginu og vinnureglum þess.

Það gleður mig líka að ungur þingmaður eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vilji ástunda vönduð vinnubrögð og vilji hafa vaðið fyrir neðan sig. Ég vil þó benda hv. þingmanni á að hann hefur haft tíma síðan í október til að finna þetta vað.