Samningur um veitingu evrópskra einkaleyfa

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 16:32:51 (6756)

2004-04-26 16:32:51# 130. lþ. 102.24 fundur 884. mál: #A samningur um veitingu evrópskra einkaleyfa# þál. 23/130, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:32]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að evrópska einkaleyfasamningnum sem gerður var í Munchen 5. október 1973, gerð um endurskoðun samningsins sem var síðan gerð í Munchen 29. nóvember árið 2000 og samningi um beitingu 65. gr. samningsins sem gerður var í Lundúnum 17. október 2000.

Markmið með evrópska einkaleyfasamningnum er að styrkja samvinnu meðal Evrópuríkja varðandi vernd uppfinninga. Leitast er við að ná því markmiði með því að mæla fyrir um sameiginlega málsmeðferð við veitingu einkaleyfa og staðlaðar reglur um einkaleyfin sem þannig eru veitt. Með samningnum er Evrópsku einkaleyfastofnuninni komið á fót en það er undirstofnun hennar, Evrópska einkaleyfastofan, sem veitir evrópsk einkaleyfi á grundvelli einsleitrar málsmeðferðar sem er sameiginleg fyrir samningsríkin. Þannig má með einni umsókn fá einkaleyfi í einu eða fleirum samningsríkjanna. Eftir veitingu einkaleyfisins veitir það sömu réttindi og landsbundin einkaleyfi og fylgir að mestu landslögum viðkomandi ríkis. Kostnaður við að fá evrópskt einkaleyfi hefur verið talinn samsvara því að fá landsbundið einkaleyfi í þremur ríkjum. Nú eru 28 ríki aðilar að evrópska einkaleyfasamningnum.

Með endurskoðunargerðinni er ráðist í viðamikla endurskoðun á evrópska einkaleyfasamningnum, hann lagaður að tæknilegri og lagalegri þróun síðustu áratuga og sveigjanleiki lagaumhverfisins aukinn. Við gildistöku hins endurskoðaða texta samkvæmt gerðinni fellur texti samningsins frá 1973 úr gildi. Nú eru 10 ríki aðilar að gerðinni.

Með Lundúnasamningnum um beitingu 65. gr. evrópska einkaleyfasamningsins er stefnt að því að draga úr kostnaði vegna þýðinga á evrópskum einkaleyfum og mælir hann fyrir um undanþágur frá kröfum evrópska einkaleyfasamningsins um þýðingar. Nú eru tvö ríki aðilar að Lundúnasamningnum.

Það þarf að gera breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum, til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem framangreindir gerningar leggja samningsríkjunum á herðar. Iðn.- og viðskrh. hefur þegar lagt fram lagafrumvarp þar að lútandi og er þessi þáltill. í samræmi við það lagafrumvarp.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.