Norðurlandasamningur um almannatryggingar

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 16:39:12 (6759)

2004-04-26 16:39:12# 130. lþ. 102.25 fundur 949. mál: #A Norðurlandasamningur um almannatryggingar# þál. 19/130, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:39]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á Norðurlandasamningi um almannatryggingar sem gerður var í Karlskrona 18. ágúst 2003. Þessi samningur kemur í stað Norðurlandasamnings um almannatryggingar frá 15. júní 1992 en ákvæði þess samnings voru lögfest með lögum nr. 46/1993. Með samningnum er samstarf Norðurlanda á þessu sviði lagað að þeirri þróun sem orðið hefur á löggjöf Evrópubandalagsins um almannatryggingar sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu og á löggjöf norrænu ríkjanna um almannatryggingar.

Samningurinn nær fyrst og fremst til einstaklinga sem ekki falla undir almannatryggingareglur hins Evrópska efnahagssvæðis.

Helsta nýmæli samningsins er fólgið í breytingum á réttindum ríkisborgara ríkja sem ekki eru aðilar að EES-samningnum. Samkvæmt honum skulu reglur hans um lífeyri almannatrygginga, fjölskyldubætur og atvinnuleysisbætur einnig taka til ríkisborgara landa utan EES sem búa á Norðurlöndunum og/eða flytja milli þeirra, að Danmörku undanskilinni. Við gerð samningsins var samræmi við EES-reglur um almannatryggingar skoðað sérstaklega og vísar samningurinn um margt til viðkomandi reglna Evrópubandalagsins um almannatryggingar. Samningurinn hefur einnig að geyma norrænar reglur sem ganga lengra en EES-reglur um almannatryggingar.

Samhliða framlagningu á þessari tillögu leggur heilbr.- og trmrh. fram frv. til laga um lögfestingu samningsins. Samkvæmt frv. fá ákvæði samningsins lagagildi hér á landi þegar hann öðlast gildi að því er Ísland varðar. Jafnframt er í frv. kveðið á um að lög nr. 46/1993, um heimild til að fullgilda Norðurlandasamning um almannatryggingar frá 1992, falli samtímis úr gildi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.