2004-04-26 16:46:14# 130. lþ. 102.26 fundur 950. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2004# þál. 20/130, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þessi mál hafa að sjálfsögðu verið rædd. Hins vegar er núna verið að vinna að gerð skýrslu um þessar mikilvægu breytingar og það er fyrst í framhaldi af vísindalegum upplýsingum sem menn geta tekið ákvörðun um til hvaða ráðstafana skuli gripið. Ekki liggja fyrir neinar haldbærar upplýsingar eða niðurstöður um hvaða áhrif þetta gæti haft á göngu fiskstofna. Það er mjög mikilvægt að fá sem bestar upplýsingar um það með tilliti til þeirra spádóma sem eru uppi um hlýnun loftslags á næstu áratugum og á þessari öld.

Í framhaldi af því er nauðsynlegt að endurmeta stöðuna, fara yfir hana, fara yfir hagsmuni allra ríkja sem eru hér í kringum norðurheimskautið. Það er tilgangurinn með þessari mikilvægu og miklu skýrslu. Hún verður síðan rædd á fundi sem haldinn verður í nóvember í Reykjavík, fundi vísindamanna. Í framhaldi af þeim fundi verður fundur ráðherranefndar Norðurskautsráðsins þar sem hugsanlegar aðgerðir verða ræddar. Ég hef miklar efasemdir um að málið verði komið svo langt að menn geti þar farið að ræða hugsanlegar breytingar á göngu fiskstofna og samninga þar að lútandi. Hér er um mjög stórt mál að ræða sem þarf langan og mikinn undirbúning.