2004-04-26 16:50:28# 130. lþ. 102.26 fundur 950. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2004# þál. 20/130, GAK
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:50]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þessi samningur skuli koma hér til umræðu tiltölulega fljótt eftir að hann var gerður. Er það talsvert annað en gilti um síðasta samning milli Íslands og Færeyja um veiðar skipa í lögsögu hvors annars og úr hinum ýmsu stofnum, uppsjávarstofnum og botnfiski. Við gerðum talsverðar athugasemdir við það nýverið í þinginu hversu seint sumir samningar hefðu borist inn til þess, framkvæmd þeirra væri í raun og veru liðin þegar þeir væru teknir til umræðu. Hér er ekki um slíkt að ræða, heldur kemur samningurinn tiltölulega fljótt til umræðu í þinginu, var gerður í Þórshöfn í lok mars. Því ber að fagna að þannig skuli staðið að málum.

Mig langar að víkja að ákvæði um botnfiskinn en í samningnum er um óbreyttar veiðiheimildir að ræða frá árinu 2003, 5.600 lestir. Nú er ég ekki með það í kollinum hvernig þessar 5.600 lestir voru samsettar og hefði gjarnan viljað heyra hæstv. ráðherra víkja að því hvaða samsetning er í hinum almennu botnfiskstegundum sem við látum Færeyingum í té innan lögsögunnar við Ísland á árinu 2004. Þó að þær séu óbreyttar frá árinu 2003 vildi ég gjarnan að það væri rifjað hér upp og sagt frá því sundurliðað hvaða tegundir um er að ræða.

Ég vil einnig víkja að öðru, hæstv. forseti, þó að það snúi kannski ekki beint að efni þessa máls, og þó. Hér erum við m.a. að ræða um veiðar á norsk-íslensku síldinni og heimila veiðar á henni innan lögsögu okkar fyrir hönd Færeyinga og heimila okkur að veiða norsk-íslenska síld innan færeyskrar lögsögu. Nú hagar svo til í því máli að ekki er kominn á samningur um síldveiðarnar við þau ríki sem áður hafa gert samning um síldveiðar úr norsk-íslenska stofninum, þ.e. Íslendinga, Færeyinga, Norðmenn, Rússa og Efnahagsbandalagið. Væri nú fróðlegt, úr því við erum að víkja að þessari umræðu, að hæstv. utanrrh. færi um það nokkrum orðum hvar þau mál eru stödd á þessum degi. Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar ef ráðherra getur veitt einhverjar slíkar, t.d. hvort fyrirhugaðar séu viðræður, hvort þreifingar hafi átt sér stað eða hvort málið sé bara enn þá í þeim búningi sem það var, þ.e. engin lausn í sjónmáli.

Ef svarið er að engin lausn sé í sjónmáli mundi ég vilja spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann og hæstv. sjútvrh. hefðu rætt saman um uppsögn á loðnusamningnum. Eins og kom fram í umræðunum í vetur þarf að segja loðnusamningnum upp með talsvert löngum fyrirvara og það þarf að huga að því núna í lok þings hvort segja eigi loðnusamningnum upp miðað við það að hann verði þá ekki í gildi á næsta ári. Við völdum þá leið á sínum tíma þegar við áttum í strögli við Norðmenn um framlengingu samningsins um síldveiðarnar að segja einnig upp loðnusamningnum. Mér finnst alveg spurning, úr því að við tókum þá yfirveguðu ákvörðun á þeim tíma sem það var gert, hvort ekki sé rétt að stíga þau skref einnig nú varðandi loðnusamninginn og nota þrýsting um það að annaðhvort séum við með samning milli þjóðanna um veiðar á uppsjávarstofnum eða ekki. Ég hefði viljað heyra svör hæstv. ráðherra að þessu leyti.

Það skiptir okkur verulega miklu máli hvernig þessi mál þróast og hvort samningar komast á almennt um veiðarnar. Ég hef áður lýst því að ég teldi æskilegt að samningar væru um veiðar á þessum uppsjávarstofnum, milli landanna, og það væri æskileg niðurstaða. Við getum hins vegar ekki kyngt hvaða skilyrðum sem er varðandi það að sætta okkur við kröfur frá Norðmönnum um sífellt minnkandi hlutdeild úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Það var aðeins vikið að því áðan að sjór er að hlýna hér við land og mun sennilega halda áfram að hlýna norður í höfum á næstu árum. Það kann að leiða til þess að síldin gangi meira inn í okkar lögsögu þó að auðvitað sé ekki hægt að kortleggja göngur hennar á nýjan leik. Það þýðir jafnframt að hegðun fisktegunda innan lögsögu okkar, t.d. loðnunnar, getur breyst og loðnan leitað meira til norðurs og norðvesturs og meira inn í grænlenska lögsögu vegna hlýnunar hér við land en verið hefur á undanförnum árum. Það er margt sem bendir til þess varðandi loðnurannsóknir að loðnan sé farin að haga sér verulega öðruvísi en þekkt var hér á árum áður og það gangi mun verr að kortleggja göngu hennar og magn í sjónum vegna hegðunar.

Ég tel að á eftir hinu breytta hegðunarmynstri og hlýnandi sjó muni einnig fylgja breytingar á botnfiskum okkar eins og þorski sem mun örugglega leita lengra norður í átt að beitarhögum sínum en verið hefur á undanförnum árum. Slík breyting gerist ekki einn, tveir og þrír en það er alveg vitað að þorskur fannst innan grænlensku lögsögunnar á Dohrn-banka á síðasta ári. Við vitum svo sem ekki hversu hröð þróunin verður í því. Sá fiskur hefur verið framseldur með samningum Grænlendinga við Evrópusambandið, reyndar verið talinn pappírsþorskur á undanförnum árum en það er ekkert sem segir að hann verði það í framtíðinni með hlýnandi sjó. Þessar heimildir eru inni í samningum, ef ég veit rétt, milli Grænlands og Evrópusambandsins.

Aðallega vildi ég fá að vita um botnfisksheimildirnar í samningnum, um stöðu síldarviðræðnanna og afstöðu hæstv. ráðherra til þess hvernig eigi að bregðast við varðandi loðnusamninginn. Honum þarf að segja upp með ákveðnum fyrirvara ef við ætlum að nota hann sem stöðu í samningaviðræðum okkar.