2004-04-26 16:58:17# 130. lþ. 102.26 fundur 950. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2004# þál. 20/130, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þessi þáltill. fjallar ekki um botnfisksaflann. Hér er hins vegar til upplýsinga getið um það að heimildir Færeyinga til veiða á botnfiski við Íslandsstrendur séu 5.600 lestir. Mig minnir --- og það er sagt með fyrirvara --- að hámark í heimildum í þorskveiðum sé upp á 1.200 tonn og í lúðuveiðum upp á 70 tonn. Önnur hámörk kunna að vera í öðrum tegundum. Það má vera að það sé hámark í löngu, ég vil ekki alveg fullyrða það. Að öðru leyti, ef ég man rétt, er hér um almenna heimild að ræða þannig að það er nokkurt svigrúm í því hvaða aðrar botnfiskstegundir eru veiddar. Frá upphafi var sérstaklega sett hámark á þorskinn en síðan bættist a.m.k. lúðan við.

Að því er varðar síldarviðræðurnar er því miður ekkert nýtt að frétta af þeim. Það hefur ekki verið rætt frekar um uppsögn á loðnusamningnum. Við erum bundin af samningum að því er varðar Norðmenn á loðnuvertíðinni 2004--2005. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að samningar gildi um allar þessar veiðar og ég veit að hv. þm. er mér sammála. Að mínu mati er ekki tímabært að fjalla frekar um það. Ég vona enn þá að samningar takist um síldveiðarnar þótt það hafi ekki gerst enn. Það tókst í fyrra og ég vil leyfa mér að vona að það gerist því það væri mikið áfall í samskiptum landanna ef það gæti ekki orðið.