2004-04-26 17:00:25# 130. lþ. 102.26 fundur 950. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2004# þál. 20/130, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hæstv. utanrrh. að það er æskilegt að samningar náist um norsk-íslensku síldina en ítreka enn og aftur þá afstöðu mína að það getur náttúrlega ekki verið byggt á því að við gefum eftir í hvert skipti sem við setjumst að samningum við Norðmenn og drögum þar af leiðandi ævinlega úr okkar veiði. Ég hef þann fyrirvara á um það en tel æskilegt að samningar séu til staðar ef mögulegt er.

Ef ég man rétt varðandi loðnusamninginn, nú er ég ekki með það mál hér fyrir framan mig, þarf að segja honum upp með sex mánaða fyrirvara, miðað við áramót. Hann fellur þá úr gildi þegar loðnuvertíðinni 2004/2005 er lokið en það þarf að segja honum upp með sex mánaða fyrirvara, og mig minnir að það sé miðað við áramót. Þó skal ég ekki alveg þvertaka fyrir að miðað sé við annað tímabil. Til þess þarf auðvitað að taka afstöðu áður en slíkur fyrirvari er liðinn því ella liggur bara fyrir að ekki er heimilt að segja samningnum upp fyrr en þá einu ári síðar. Þá virkar hann ekki sem þrýstingur inn í þessar viðræður.