2004-04-26 17:13:38# 130. lþ. 102.26 fundur 950. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2004# þál. 20/130, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[17:13]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Við ræðum till. til þál. um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2004.

Ég vil í upphafi máls mína lýsa yfir miklum vonbrigðum með það að hæstv. sjútvrh. skuli ekki vera staddur í salnum. Hann var hér rétt áðan en er nú horfinn á braut. Það hefði verið mjög áhugavert að hafa hann til staðar, ekki síst vegna þess að það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá að þetta mál var á dagskrá í dag að síðast þegar við ræddum um samninga á milli Íslands og Færeyja, það var fyrir örfáum vikum, ræddum við um samning sem var gerður í fyrra og gilti fyrir síðasta ár. Nú hefur það orðið hlutskipti hæstv. sjútvrh. að landa þessum samningum á hverju ári, ef svo má segja, með því að hann hefur farið til Færeyja og átt þar viðræður við frændur okkar þar og hefur svo komið heim með samninga í farteskinu. Það var einmitt sama dag og við ræddum hér fyrir nokkrum vikum samning fyrra árs sem þinginu bárust þær fréttir utan úr bæ að hæstv. sjútvrh., Árni M. Mathiesen, hefði einmitt verið að gera samning við Færeyinga úti í Þórshöfn, þ.e. samning fyrir árið 2004, þann samning sem við höfum fyrir framan okkur núna.

Það er alveg sjálfsagt mál að hrósa ríkisstjórninni fyrir það að hún skuli sjá að sér og sé nú farin að leggja fyrir þingið þessa samninga, þessa mikilvægu samninga, á nokkurn veginn réttum tíma þannig að þingið geti tekið afstöðu til þeirra og rætt þá því að þetta eru mikilvægir samningar. Batnandi manni er best að lifa.

[17:15]

Mig langaði til að koma að nokkrum atriðum. Í máli hæstv. utanrrh. áðan kom fram að hér væri verið að tala um að Færeyingar mættu veiða 70 tonn af lúðu á þessu ári, þ.e. þá sennilega núna í sumar. Það kom fram í svari við fyrirspurn til þingsins fyrir ekki svo mörgum vikum, fyrirspurn sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lagði fyrir sjútvrh., að lúðuveiðar hafa dregist mjög mikið saman við Ísland á undanförnum árum. Það kemur greinilega fram í ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar að fiskifræðingar telja að lúðustofninn eigi mjög í vök að verjast. Sumir sjómenn hafa verulegar áhyggjur af þessu. Það eru líka mjög margir sjómenn sem óttast að stjórnvöld muni bregðast við eins og svo oft áður þegar þau bila á taugum og halda að allt sé að fara á vonarvöl vegna ofveiða, að setja fisktegundir í kvóta. Veiðunum verður þá lokað fyrir öllum öðrum en þeim sem eru svo heppnir að hafa einhvers konar viðmiðun í einhver tiltekin ár sem virðist síðan aftur byggt á einhvers konar geðþóttaákvörðun stjórnvalda á hverjum tíma.

Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh. hvort honum hefði ekki fundist skynsamlegra að reyna að komast undan þessu ákvæði Færeyinga, þ.e. reyna að láta þá ekki hafa þennan lúðukvóta, heldur reyna frekar að halda honum fyrir okkar eigin sjómenn og láta frekar Færeyingana hafa veiðiheimildir í öðrum tegundum í staðinn, t.d. þá þorski og ýsu. Þær tegundir standa mun sterkar og betur en lúðustofninn. Ég tel að það hefði verið ábyrg og góð afstaða því lúðuveiðar við Ísland, sérstaklega við suðurströndina og einnig við Vesturland, skipta töluvert miklu máli fyrir marga íslenska sjómenn yfir sumartímann, sjómenn á minni bátum. Það hefði verið mjög ábyrg afstaða ef við hefðum, einmitt til að reyna að draga úr veiðiálagi á lúðu, neitað Færeyingum um þessi 70 tonn og frekar reynt að láta þau falla til okkar eigin sjómanna og beint síðan Færeyingum í aðrar veiðar. Af nógu er að taka í öðrum stofnum.

Hér eru líka ákvæði um kolmunnaveiðar sem mér finnast mjög góð, ákvæði um að þjóðirnar geti veitt kolmunna í lögsögu hvor annarrar. Ég vildi þó fá að koma því að að mér finnst gersamlega óskiljanlegt að hæstv. sjútvrh., þá væntanlega með blessun kollega síns í ríkisstjórn, hæstv. utanrrh. sem bráðum verður hæstv. forsrh., skuli hafa ákveðið kolmunnakvóta fyrir þetta ár og dregið kolmunnakvótann saman um 10% frá síðasta ári. Þetta eru hrikaleg mistök fyrir þjóð sem er núna að reyna að semja um skiptingu þessa stofns, sérstaklega í ljósi þess að bæði Færeyingar og Norðmenn stunda nánast frjálsar veiðar úr honum.

Einnig eru þetta mistök í ljósi nýlegra mælinga norskra fiskifræðinga. Ég er hér með norskt blað þar sem sögð er frétt af því að norskir fiskifræðingar séu nýkomnir úr kolmunnaleiðangri og að hrygningarstofn kolmunnans hafi aldrei verið jafnstór þrátt fyrir að meira en tvær millj. tonna hafi verið veiddar í fyrra. Það er eins og sjái ekki högg á vatni þótt veiðar séu miklar úr þessum stofni. Mér finnast það alvarleg afglöp hjá íslenskum stjórnvöldum að hefta flotann okkar núna, einmitt á þessari stundu, á meðan allir aðrir veiða eins og þeir geta. Þannig skemma stjórnvöld samningsaðstöðu okkar um þennan mikilvæga fiskstofn sem er einn sá stærsti, gott ef ekki sá alstærsti, í Norður-Atlantshafi nú um stundir. Þetta eru mikil mistök, herra forseti.

Norsk-íslenska síldin er annað mál. Því miður eru horfurnar varðandi nýjan síldarsamning mjög dökkar eins og reyndar hefur komið fram, bæði í máli hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar og máli hæstv. utanrrh. Miðað við nýjustu fréttir frá Noregi er ekki að sjá að norskir útgerðarmenn reyni að hvetja eigin stjórnvöld til að fíra þar um eina einustu tommu og það verður reyndar mjög spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu.

Aðeins hér að lokum, herra forseti, langar mig til að koma að einu máli sem hefur ákveðið samhengi við þá þáltill. sem við fjöllum um núna. Það á líka svolítið skylt við þáltill. sem við tölum um á eftir, Færeyjar og færeyska fiskveiðistjórnarkerfið. Framsfl. flaggaði því mjög í síðustu kosningabaráttu og þess vegna vil ég einmitt taka þetta mál upp núna. Hæstv. utanrrh. er jú formaður Framsfl. sem flaggaði því mjög í síðustu kosningabaráttu, einkum hv. þm. Hjálmar Árnason, að flokkurinn hefði í fyrra lagt fram tillögu, einmitt frá hv. þm. Hjálmari Árnasyni, um að láta fara fram hlutlausa úttekt á kostum og göllum færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins, sóknardagakerfisins, og rannsaka hvernig það hentaði við íslenskar aðstæður. Þannig gætum við tekið afstöðu til þess hvort þetta færeyska kerfi væri betra eða verra en kerfið okkar og þá væri hægt að bera saman kostina og gallana og hv. þm. Hjálmar Árnason taldi að þetta væri mjög ábyrg afstaða. Það kom greinilega fram í máli hans sem margir vita á Íslandi, að mikil ánægja ríkir með þetta kerfi í Færeyjum, aflabrögð hafa gengið mjög vel og það er ekki að sjá að það sé nein ofveiði heldur, ekki frekar en í kolmunnanum þó að menn hafi veitt töluvert fram úr ráðgjöf fiskifræðinga, ef svo má segja.

Þessi þáltill. Framsfl. fór í gegnum þingið og ég fæ ekki betur séð á þeim pappírum sem ég er með hér núna en að hún hafi farið í gegnum bæði fyrri umræðu, síðan hv. sjútvn., aftur í gegnum síðari umræðu og verið samþykkt, einróma nánast, og send ríkisstjórninni til afgreiðslu. En þar lýkur sögunni. Þar hverfa sporin. Ég kemst ekki lengra í þessu rannsóknarferli mínu þó að ég hafi lagt töluverða vinnu í að reyna að finna út úr því hvað varð um þáltill. Framsfl. um að gera úttekt á færeyska fiskveiðistjórnarkerfinu. Það átti að liggja fyrir skýrsla í þinginu þann 15. mars frá nefnd sem átti að skipa um þessa úttekt. Nú er kominn rúmur mánuður frá þeirri dagsetningu.