2004-04-26 17:26:30# 130. lþ. 102.26 fundur 950. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2004# þál. 20/130, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[17:26]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Út af þeim spurningum sem hér hafa komið fram, fyrst hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni, um lúðuveiðarnar, er því til að svara að það er hefð fyrir lúðuveiðum Færeyinga í lögsögu okkar. Þær hafa minnkað mjög mikið af eðlilegum ástæðum frá því að þær hófust. Hér er um línuveiðar að ræða og ég held að það sé ljóst að á þeim miðum sem Færeyingarnir veiða muni alltaf eitthvað af lúðu veiðast. Hins vegar hafa menn leitað sérstaklega eftir þessum dýrmæta fiski af eðlilegum ástæðum. Það geta að sjálfsögðu ríkt margvísleg sjónarmið um það hvort þessar heimildir eigi að vera meiri eða minni. Það sama má segja um lönguveiðarnar, íslensk skip hafa kvartað yfir því að Færeyingar hefðu heimildir til þeirra veiða. Afstaða okkar hefur verið sú að eiga gott samstarf í sjávarútvegsmálum við Færeyinga og að þeir fengju leyfi til að veiða þetta magn. Auðvitað má ávallt deila um hvernig það eigi að skiptast innbyrðis milli tegunda. Ég get í sjálfu sér ekki sagt meira um það. Mér finnst hins vegar eðlilegt að skiptingin byggi á sögulegum forsendum eins og í þessu tilviki.

Að því er varðar loðnuveiðar Færeyinga sem hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á hygg ég að Færeyingum sé heimilt að veiða með nákvæmlega sömu veiðarfærum og íslenskum skipum leyfist. Ef íslensk skip fá að veiða með flotvörpu fá Færeyingar það líka. Þeir eru bundnir af sömu möskvastærð og íslensk skip. Ég veit ekki betur en að þeir lúti algjörlega sömu reglum og íslensk skip í sambandi við veiðarfærin. (Gripið fram í: En ekki síldina?) Sama á við um síldina, enda hafa Færeyingar engar heimildir til að veiða úr íslenska síldarstofninum. Þeir hafa hins vegar heimildir til að veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og þar erum við með gagnkvæmar heimildir milli Íslands og Færeyja. Við fáum að veiða með okkar veiðarfærum í færeyskri lögsögu og þeir fá að veiða með sínum hætti í okkar lögsögu. Þó hygg ég að nær eingöngu hafi verið veitt úr norsk-íslenska síldarstofninum af okkar hálfu með hringnót þótt ég hafi ekki alveg áreiðanlegar upplýsingar um það. Þetta má að sjálfsögðu allt upplýsa í meðferð málsins hjá hv. nefnd.

Að því er varðar makrílinn veit ég til þess að eitthvert lítils háttar magn af honum hefur verið veitt í færeyskri lögsögu. Ég hef ekki nákvæmar upplýsingar um hve mikið en hygg að þessar heimildir hafi ekki verið nýttar til fulls. Þær voru settar fram á sínum tíma til þess að sýna fram á að það gætu verið einhverjir gagnkvæmir hagsmunir í þeim heimildum.

Eftir því sem ég best veit hefur verið tiltölulega lítil makrílveiði í færeysku lögsögunni. Hvar þessum afla hefur verið landað --- ég veit til þess að einhverju af honum hefur verið landað í Noregi, enda makrílveiði Norðmanna mikil og allmikil makrílveiði í lögsögu þeirra.

Að því er varðar túnfiskinn veit ég ekki til þess að heimildirnar hafi verið notaðar. Hér var japanskt skip á tilraunaveiðum og það hefur orðið tiltölulega lítið úr veiðum á túnfiski í íslenskri lögsögu. Við komum seint inn í þær veiðar og síðan hefur sjávarhiti verið slíkur hér við land að ekki hefur verið mikið um gengd á túnfisk í lögsögu okkar. Það kann að breytast með breyttu hitastigi og aldrei að vita nema þar geti verið um nokkrar veiðar að ræða. Eins og menn vita er hér um mjög verðmætan fisk að ræða.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, þakka fyrir góðar undirtektir í þessu máli og þá samstöðu sem virðist ríkja um veiðiheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu. Það er mjög mikilvægt að sú samstaða varðveitist og er lýsandi dæmi um það að Íslendingar vilji eiga vinsamleg og góð samskipti við þessa vina- og bræðraþjóð.