Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 17:50:52 (6781)

2004-04-26 17:50:52# 130. lþ. 102.28 fundur 960. mál: #A Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað# (heildarlög) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[17:50]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Er því, ef samþykkt verður, ætlað að koma í stað gildandi laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, nr. 64/1943.

Frv. var samið af nefnd sem skipuð var af þáv. dómsmrh. árið 2000 til að gera tillögur um framtíðarskipulag á birtingu laga og stjórnvaldserinda. Felur frv. í sér endurskoðun á gildandi lögum og er þar lagt til að lögin verði uppfærð og tekin upp nokkur atriði sem eru til þess fallin að gera birtingu laga, stjórnvaldserinda og milliríkjasamninga í senn skilvirkari og ódýrari án þess að á nokkurn hátt sé slakað á þeim kröfum sem gera ber til réttaröryggis við miðlun upplýsinga af þessu tagi.

Helsta breytingin sem lögð er til í frv. er að heimilað verði að gefa Stjórnartíðindi eingöngu út á rafrænu formi að ákveðnum skilyrðum fullnægðum. Auk þess er lagt til að birting á EES-reglum og öðrum þjóðréttarreglum, sem leiða þarf í landsrétt, verði gerð skilvirkari en nú er. Þá gerir frv. ráð fyrir að heimilað verði í undantekningartilvikum að birta þjóðréttarreglur á erlendu máli að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Frv. hefur átt sér nokkurn aðdraganda. Góð reynsla af útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðsins á netinu varð til þess að heimilað var með lögum nr. 165/2002 að hætta prentaðri útgáfu Lögbirtingablaðs og gefa það eingöngu út á rafrænu formi, þó þannig að þeir sem þess óska geti keypt rafræna útgáfu blaðsins prentaða. Á grundvelli þessarar heimildar er ráðgert að hætta prentaðri útgáfu Lögbirtingablaðs í júní 2004 og gefa blaðið eingöngu út á rafrænu formi eftir það.

Tímabært þykir að leggja til að lögfest verði sams konar heimild til að birta Stjórnartíðindi eingöngu á rafrænu formi.

Rafræn birting laga og annarra settra réttarreglna getur haft ýmsa kosti í för með sér, einkum þá að auðvelda aðgengi að þeim og stuðla að sparnaði og hagræðingu þegar fram í sækir. Með hliðsjón af þeim megintilgangi birtingar að tryggja að lögin séu aðgengileg þannig að réttaröryggi sé tryggt þarf þó ýmsum skilyrðum að vera fullnægt svo að rafræn birting komi til álita.

Það á t.d. við um að almenningur verður að hafa aðgang að nauðsynlegum vél- og hugbúnaði til að nálgast hinar rafrænu heimildir. Af þessum sökum er mikilvægt að fyrirkomulag rafrænnar birtingar taki mið af því að búnaður sem flestra nýtist og er sérstaklega á því hnykkt í frumvarpinu.

Þá ber að geta þess að aðgengi almennings að netinu hér á landi er gott og full ástæða er til að gera lög aðgengileg á netinu með þeim hætti sem frv. mælir fyrir. Ef lagt er til grundvallar að almenningur eigi þess ávallt kost að fá prentað það sem birt er rafrænni birtingu eins og gert er ráð fyrir í frv. kemur ekki að sök þótt hluti þjóðarinnar geti af einhverjum ástæðum, enn sem komið er, ekki nýtt sér upplýsingatæknina til þess að kynna sér birt lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

Þá gefur rafræn birting laga tilefni til ýmissa álitaefna frá tæknilegu sjónarhorni. Ljóst er að rafræn birting laga verður fortakslaust að vera svo örugg að ekki fari á milli mála hvaða lög gildi og hafi gilt í landinu á hverjum tíma. Þetta gerir ríka kröfu til þess kerfis sem notað er til birtingar og að þær upplýsingar sem þar birtast séu örugglega réttar með tilliti til villna eða jafnvel íhlutunar óviðkomandi aðila. Jafnt almenningur sem hið opinbera verður að geta treyst þeim upplýsingum sem miðlað er í rafrænum Stjórnartíðindum eða Lögbirtingablaði. Rétt er að árétta að rafræn útgáfa Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs verður ekki að fullu tekin upp nema gengið hafi verið úr skugga um að öryggi sé fyllilega tryggt.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. en um frekari rök og útlistanir á ákvæðum þess vísa ég til greinargerðar með frv. Þar er ítarlega rakin saga útgáfu laga og stjórnvaldsfyrirmæla hér á landi.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.