Afgreiðsla þingmannamála

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 13:46:33 (6810)

2004-04-27 13:46:33# 130. lþ. 103.91 fundur 503#B afgreiðsla þingmannamála# (aths. um störf þingsins), Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega taka það fram að þingflokkur Samf. ákvað fyrir helgi, þegar það var ljóst að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir væri að koma til starfa, hress og glöð, að við mundum sækjast eftir því að hennar mál kæmust í forgang af okkar málum. Það á ekkert skylt við þá ákvörðun sem hefur verið tekin um það af hálfu forseta að ekki eigi að mæla fyrir fleiri þingmannamálum.

Ég vil sérstaklega taka það fram í tilefni af orðum sem féllu hér að þegar Samf. kemst til valda mun hún svo sannarlega viðhafa gott, vandað og árangursríkt þinghald. Við höfum talað fyrir því.

Hins vegar vil ég líka taka það fram að ég er frekar ánægð með viðbrögð hæstv. forseta. Þrátt fyrir allt er hann, finnst mér, í viðbrögðum sínum svolítið sár yfir gagnrýni en lætur í það skína að ekki sé búið að loka á það að þingmannamál komist á dagskrá. Ég ætlast eiginlega til þess og fer þess á leit að forsn. skoði hve langan tíma áætlað er að taka í viðbót í þinghaldið í maí, ég lýsi því aftur yfir að það stendur ekki á okkur í Samf. að vera allan maí, sé þessi þörf, og að það sé tekið upp hvernig þinghaldinu á að vinda fram og þá líka hvaða þingmannamál komist á dagskrá. Það hefur líka áður gerst að þingflokkar stjórnarandstöðunnar og þingflokkar almennt hafa þá valið úr ef þau komast ekki öll að.

Mér finnast það ekki rök, herra forseti, að tilgreina að 55 af 88 frumvörpum hafi þegar komist til nefnda og 72 af 114 þáltill. þessarar öflugu stjórnarandstöðu. Auðvitað eiga þingmannamál alveg jafnt og stjórnarmálin að komast til nefnda.