Borgaralegir og hernaðarlegir þættir í starfi Íslensku friðargæslunnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:06:42 (6814)

2004-04-27 14:06:42# 130. lþ. 104.1 fundur 859. mál: #A borgaralegir og hernaðarlegir þættir í starfi Íslensku friðargæslunnar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Við Íslendingar höfum löngum stært okkur af því að vera vopnlaus þjóð og hafa verið svo um aldir. Að vísu báru Íslendingar enn þá vopn á 16. öld og leystu ágreiningsmál sín með vopnaburði eða handafli, eða gerðu a.m.k. tilraun til þess. Má til marks um það nefna dráp á fógetum Danakonungs, eins og Diðriki af Minden 1539 og Kristjáni skrifara 1551. Nokkrum áratugum síðar þótti þó hins vegar Magnúsi Jónssyni, sýslumanni í Barðastrandarsýslu, vopnaburði landsmanna hafa hrakað svo mjög að hann skyldaði sveitunga sína til að bera vopn samkvæmt svokölluðum vopnadómi 1581. Allt kom þó fyrir ekki og á næstu áratugum afvopnuðust landsmenn hægt og hljótt. Lengst lifði þó hefðin, að segja má, meðal afkomenda téðs Magnúsar en sonur hans var Ari í Ögri, eins og kunnugt er, sem stóð að Spánarvígunum 1615.

Afvopnun Íslendinga er í sögubókum gjarnan tengd við eflingu ríkisvaldsins og aukna siðvæðingu í því sambandi, þ.e. ríkisvald, lög og dómar tóku við af vopnunum og tali þeirra. Engu að síður herjuðu erlendir ránsmenn á Íslendinga á næstu öldum af og til, samanber Tyrkjaránið, Gilpinsránið og valdarán Jörundar hundadagakonungs 1809. Ekkert af þessu varð þó Íslendingum tilefni til þess að vopnast eða hervæðast eða koma sér upp landvörnum.

Með sambandssáttmálanum 1918 fengu Íslendingar fullveldi eins og kunnugt er og skilgreindu sig sem hlutlausa þjóð, ákváðu að koma sér ekki upp her eins og kunnugt er og hefur svo haldist síðan.

Nú má spyrja hvort stjórnvöld séu smátt og smátt og með ýmsum hætti að breyta þessari stöðu Íslands sem og hinu, sem við höfum einnig iðulega stært okkur af, að við höfum aldrei herjað á aðrar þjóðir. Má í því sambandi nefna árásir NATO á Júgóslavíu, sem Ísland sem meðlimsríki er samábyrgt fyrir, og stuðning ráðamanna við Íraksstríðið. Hvað vopnaburðinn snertir má benda á tilraunir hæstv. ráðherra Björns Bjarnasonar til að tala hér fyrir her eða heimavarnarliði, fjölgun í víkingasveit og vopnun hennar og nú síðast berast fréttir af því að Íslendingar muni verða alvopnaðir við svokallaða friðargæslu í Kabúl.

Þetta gefur tilefni til ýmissa spurninga, ekki síst um það hvernig þessi stefnumótun eða ákvarðanataka hefur farið fram. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. utanrrh.:

1. Hvernig er aðskilnaði borgaralegra og hernaðarlegra þátta í starfi Íslensku friðargæslunnar háttað?

2. Hvaða munur er á þjálfun, starfskjörum og tryggingum starfsmanna sem bera, eða hafa heimildir til að bera, vopn við störf sín og starfsmanna sem ekki hafa slíkar heimildir?

3. Hvert eru fyrirmyndir að starfsheitum af hernaðarlegum toga, eða ,,tign``, starfsmanna friðargæslunnar sóttar?

4. Hvaða reglur gilda, eða munu gilda, um heimildir starfsmanna friðargæslunnar til að beita vopnum sínum, þ.e. í sjálfsvörn, til að verja aðra o.s.frv.?