Borgaralegir og hernaðarlegir þættir í starfi Íslensku friðargæslunnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:19:05 (6818)

2004-04-27 14:19:05# 130. lþ. 104.1 fundur 859. mál: #A borgaralegir og hernaðarlegir þættir í starfi Íslensku friðargæslunnar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Það sem kemur mér á óvart í þessu máli er ekki að umræða skapist um málið. Það sem kemur mér sérstaklega á óvart er að fulltrúum í utanrmn. Alþingis skuli ókunnugt um þessa tilhögun, þeir tala með þeim hætti, sem hefur verið frá árinu 1994. Hér hafa komið alþingismenn sem hafa jafnvel setið í ríkisstjórn á þeim tíma og virðist koma þetta á óvart. Ég er afskaplega undrandi á því.

Það hefur engin breyting orðið á þessum málum frá árinu 1994. Ég veit að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sat ekki í ríkisstjórn þá. Ég tel enga ástæðu til slíkra breytinga. Ef hv. þingmenn eru þeirrar skoðunar að slíkt geti aldrei átt sér stað af hálfu Íslendinga þá liggur það alveg ljóst fyrir að við hefðum ekki getað tekið að okkur uppbyggingu á flugvellinum í Pristína. Við hefðum ekki getað tekið að okkur uppbyggingu á flugvellinum í Kabúl. Það er sjónarmið út af fyrir sig að við eigum ekki að gera það. En ég tel pólitískt mikilvægt fyrir Íslendinga að láta að sér kveða við friðargæslu í heiminum og taka að sér brýn verkefni þar sem við getum orðið að gagni. Í mínum huga er enginn vafi um að við höfum gert gífurlegt gagn í Kosovo, á flugvellinum í Pristína. Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna hafa lýst sérstakri ánægju með störf Íslendinga þar og ég er ekki í nokkrum vafa um að við munum gera hið sama í Afganistan. Við munum fá álíka hrós frá fulltrúum Sameinuðu þjóðanna og annarra í sambandi við það mál.