Menningarhús ungs fólks

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:21:28 (6819)

2004-04-27 14:21:28# 130. lþ. 104.2 fundur 929. mál: #A menningarhús ungs fólks# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BrM
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:21]

Fyrirspyrjandi (Brynja Magnúsdóttir):

Frú forseti. Landslagið í tómstundamálum ungs fólks hefur orðið fjölbreyttara á síðari árum með tilkomu svokallaðra menningarhúsa ungs fólks. Í þessum ungmennahúsum getur fólk á aldrinum 16--25 ára eða ,,16 plús`` komið saman til skrafs, ráðagerða, afþreyingar eða upplýsingaleitar um hin ýmsu mál. Stofnað hefur verið Íslenska húsfélagið en það er samstarfsvettvangur þeirra menningarhúsa sem eru til staðar á Íslandi í dag. Húsfélagið er mjög mikilvægt fyrir framtíð húsanna og sér það um að húsin séu samstiga í verkum sínum. Mikilvægt er að vita fyrir hvað húsin standa til að geta markaðssett þau. Einnig er mikilvægt að vita hvaðan fjármagnið kemur og síðast en ekki síst hvert starfsumhverfi þeirra er, hver er þeirra æðsti yfirboðari og hver er framtíð þeirra.

Ungmenni verða sjálfráða 18 ára en fyrir 16--18 ára er í raun ekki til bein félagsleg afþreying. Það eina sem er í boði er e.t.v. félagslíf framhaldsskólanna en ekki fara allir í skóla og til eru íþróttahreyfingar en ekki vilja allir stunda íþróttir.

Félagsmiðstöðvar ungs fólks og húsin, ungmennahúsin svokölluðu, geta líkast til átt í gott samstarf en þó þarf að gæta að markaðssetningu húsanna gagnvart ungmennum. Tryggja verður að húsin verði viðurkenndur vettvangur spennandi tómstundastarfs í þeirra huga en hætt er við, ef blandað er of mikið saman starfi félagsmiðstöðva og húsanna, að það virki sem fæling á 16 plús hópinn.

Fjárhagserfiðleikar steðja að mörgum þessara húsa, sérstaklega þegar horft er til þeirrar staðreyndar að RKÍ er að hverfa úr samstarfinu við mörg þeirra. T.d. er nánasta framtíð Gamla apóteksins á Ísafirði mjög óljós. Af því tilefni hafa forstöðumenn húsanna ályktað um það, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þess að Gamla apótekið hefur verið í forustuhlutverki húsa á landsvísu er mikilvægt að rekstur þess verði tryggður. Það er klárt hagsmunamál húsanna á Íslandi að Gamla apótekið haldi áfram starfsemi sinni.``

Frú forseti. Húsin eru greinilega að berjast fyrir tilverurétti sínum og langar mig því að forvitnast hjá hæstv. menntrh. um hvort hún ætli ekki að skella sér með þeim í baráttuna og jafnvel auðvelda þeim hana. Ég veit að endurskoðun laga um æskulýðsmál frá árinu 1970 fer nú fram. Ég tel tilvalið að horfa til þessara húsa og hafa með í reglugerð eða lagasetningu um æskulýðsmál. Forveri hæstv. menntmrh. sagði 15. október 2003, með leyfi forseta:

,,... þátttaka ungs fólks í félags- og tómstundastarfi er einn af hornsteinum uppbyggilegrar þátttöku þeirra í samfélaginu ... uppeldislegt gildi félags- og tómstundastarfs er mikið en þátttaka í starfi af þessu tagi kennir ungu fólki að vinna saman og taka ákvarðanir í samstarfi við aðra ... þátttaka í félags- og tómstundastarfi hefur mikið forvarnagildi og stemmir stigu við ýmiss konar frávikshegðun ungs fólks.``

Því spyr ég um æskulýðsmál 16 plús hópsins:

Hefur ráðuneytið hugað að setningu reglugerða eða laga um starfsumhverfi og rekstur menningarhúsa ungs fólks, þ.e. húsa sem opnuð hafa verið með þarfir ungs fólks í huga, svo sem fyrir afþreyingu, námskeið, fundi, tónleika og hjálparúrræði?