Menningarhús ungs fólks

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:30:35 (6822)

2004-04-27 14:30:35# 130. lþ. 104.2 fundur 929. mál: #A menningarhús ungs fólks# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BrM
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Brynja Magnúsdóttir):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. góð og málefnaleg svör. Ég vil þó að húsunum verði sinnt meira og bendi því á svar hæstv. menntmrh. við fyrirspurn minni um stefnumótun í æskulýðs- og tómstundamálum. Þar förum við einmitt að tala um þessa margumræddu nefnd. Skipuð hefur verið nefnd til að hefja vinnu við gerð draga að nýjum lögum um æskulýðsmál. Í svari ráðherra segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin mun væntanlega eiga samstarf við ýmsa aðila, þar á meðal Samband íslenskra sveitarfélaga. Nefndin mun hafa að leiðarljósi hagsmuni barna og ungmenna í starfi sínu. Ljóst er að verkið er flókið og mörg sjónarmið um hvernig slík lög eigi að vera og hversu ítarleg.``

Ég vil ítreka að sjónarmið 16 plús hópsins verða að heyrast og það verður að sinna þessum málaflokki með framtíðarsýn. Einhverjir kvarta yfir því að fáir mæti í húsin en með markaðssetningu og þeirri vissu að húsin séu komin til að vera má álykta að aðsókn aukist, að sterkari hefð skapist fyrir því að fara í húsin.

Þegar fyrstu félagsmiðstöðvarnar voru að hefja starfsemi sína á Íslandi voru þær svo til ómótaðar og ekki mikil aðsókn. En við höfum séð þær festa sig varanlega í sessi og aðsókn stóraukast. Nú er það svo að sveitarfélag telst hálfpúkó ef það býður ekki upp á félagsmiðstöð.

Ég er ekki að biðja um menningarhús ungs fólks í hvert einasta sveitarfélag en það þarf samt að huga að starfsumhverfi þeirra og hlúa að þeirri sprotastarfsemi sem er hafin á Íslandi í þágu 16 plús hópsins. Þessi hús eru nú þegar farin að horfa til Norðurlandanna, til samtaka eins og Nordisk Ungdomsforum og U-Nettet í Danmörku til að læra af þeim og forðast að taka slæmar ákvarðanir í rekstri eða vinnu. Ég fagna því ef hugað verður að framtíð húsanna á Íslandi því að ég vil að þau séu komin til að vera. En það verður að huga að framtíðarsýn og ná fram heilsteyptu skipulagi tómstunda- og æskulýðsmála á Íslandi. Það verður líka að hafa samráð við Húsfélagið við endurskoðun æskulýðslaganna þannig að við náum fram virkilega heilsteyptu yfirbragði. Í Húsfélaginu er ungt fólk og þannig að við náum því inn.