Störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:10:58 (6841)

2004-04-27 15:10:58# 130. lþ. 104.5 fundur 794. mál: #A störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég sé mig knúinn til þess í fullri hófsemd að minna þingheim á að á Íslandi er höfuðborg og heitir Reykjavík. Hún hefur að vísu ekki þá stjórnsýslulegu stöðu að formi til í stjórnarskrá eða annars staðar --- og nú heyri ég að margar klukkur hringja á borðum hv. þm. og fagna því að þeir skuli vakna með þessum hætti þegar minnst er á höfuðborgina Reykjavík.

Höfuðborg er þess eðlis að þar er eðlilegt að stjórnsýslan fari fram. Þar með er eðlilegt einkenni höfuðborga að þar séu margir opinberir starfsmenn við stjórnsýsluna. Það að hlutfall eigi að endurspeglast eftir íbúatölu finnast mér ákaflega einkennilegar kenningar og dularfull hagfræði sem hæstv. ráðherra byggðamála fór með hér áðan.

Hins vegar verð ég í þessu stutta innleggi mínu að taka undir með hv. þm. Láru Stefánsdóttur þegar hún segir að á okkar öld kunni það að vera (Forseti hringir.) meira keppikefli að gera fólki kleift að vinna þar sem það vill búa í stað þess að flytja ríkisstofnanir (Forseti hringir.) með þunglamalegum og luralegum hætti (Forseti hringir.) eins og við kunnum mörg dæmi um frá síðustu árum og áratugum.

(Forseti (BÁ): Forseti vill vekja athygli þingmanna á að þeim gefst kostur á að koma með stutta athugasemd sem á að vera um ein mínúta.)