Störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:20:19 (6847)

2004-04-27 15:20:19# 130. lþ. 104.5 fundur 794. mál: #A störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil endurtaka það og halda því til haga að annar ráðherra fer með þennan málaflokk, hæstv. forsrh. Hann skipaði nefnd sem hefur verið að störfum og hefur skilað honum tillögu um það hvernig brugðist skuli við. Ég get ekki greint frá því hér, ég hef ekki þær upplýsingar.

Af því að hér hafa verið nefndar stofnanir eins og Lýðheilsustofnun sem heyrir undir heilbrrh. er reyndar ekki rétt að alltaf hafi verið talað um að hún yrði á Akureyri. Hugmyndir voru uppi um það en hins vegar varð niðurstaðan þessi, og heilbrrh. getur áreiðanlega skýrt hvers vegna það var.

Hér var talað um frelsi til búsetu. Það er einmitt eitt af því sem kveðið er á um í byggðaáætlun, að vinna að því að gera fólki mögulegt þótt það starfi við ríkisstofnun sem er staðsett í Reykjavík að vinna verkið annars staðar á landinu. Það er hlutur sem þarf að þróa og gæti skipt miklu máli.

Hv. fyrirspyrjandi talaði um að önnur lönd hefðu stefnu í þessum málum og ég veit að Norðmenn hafa gengið mjög langt í því að flytja stofnanir út á land. Við höfum reyndar flutt stofnanir út á land. Byggðastofnun var nefnd og hún er ekki á Sauðárkróki alveg óvart. Hún er þar vegna þess að pólitísk ákvörðun var tekin um að hún skyldi flutt þangað. Hv. þm. var kannski ekki alveg klár á því.

Hins vegar erum við líka með stefnu í byggðamálum sem er byggðaáætlun og eftir henni er unnið. Hún tekur á gríðarlega mörgum þáttum sem skipta máli en ég vil líka taka undir það með hv. þm. Merði Árnasyni að höfuðborgin okkar hefur þá stöðu að t.d. Stjórnarráðið er samkvæmt stjórnarskrá okkar í Reykjavík. Þetta eru hlutir sem við getum ekki horft fram hjá þó að möguleikarnir séu ýmsir.