Samkeppnisstofnun

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:22:52 (6848)

2004-04-27 15:22:52# 130. lþ. 104.6 fundur 721. mál: #A Samkeppnisstofnun# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég óska eftir svörum frá hæstv. iðn.- og viðskrh. varðandi starfshætti Samkeppnisstofnunar. Spurningarnar eru einkum bornar upp í tengslum við samkeppni á fjarskiptamarkaði en þar er tækniþróun ör og brýnt að fá úrskurði sem allra fyrst í málum sem varða samkeppni. Dragist mál úr hófi fram í meðförum Samkeppnisstofnunar svo mánuðum og jafnvel árum skiptir er hætt við að niðurstaða samkeppnisyfirvalda skipti í raun engu máli þegar hún loksins birtist. Málið er einfaldlega orðið úrelt. Dæmi eru um þetta. Má nefna mál sem varðar kvörtun vegna internetþjónustu yfir breiðbandið en það tók þrjú ár að fá niðurstöðu. Þegar hún loksins birtist skipti hún engu máli fyrir þann sem kvartaði. Málið var einfaldlega orðið úrelt.

Það er ljóst að með þessum starfsháttum næst markmið laganna ekki og markaðsráðandi fyrirtæki geta í raun hagnast á því að brjóta samkeppnislög. Í framhaldi af framangreindri sérstöðu fjarskiptamarkaðar vegna örrar tækniþróunar má spyrja hvort ekki sé skynsamlegt fyrir samkeppnisyfirvöld að forgangsraða sérstaklega brotum á fjarskiptamarkaði.

Til þess að fá gleggri mynd af stöðu mála spyr ég hæstv. ráðherra:

Hversu mörg mál hafa borist Samkeppnisstofnun frá 29. janúar 2003 og hve mörg hafa verið sett í bið? Hvað er biðtíminn að jafnaði langur?

Ég hef haft spurnir af máli sem varðar heildarsamtök og barst stofnuninni þann 8. janúar sl. þar sem kvartanda var tilkynnt að málsmeðferð hæfist ekki fyrr en 2. apríl. Málið var sett í salt í heila þrjá mánuði. Í ljósi þessa langa biðtíma óska ég eftir skýrum svörum um hvort hæstv. ráðherra telji að efla þurfi Samkeppnisstofnun og hvernig hún meti þá þörf.

Í umsögn meiri hluta samgn. frá árinu 2001 vegna fyrirhugaðrar sölu Landssímans kom fram að forsenda samkeppni á fjarskiptamarkaði sé öflugt samkeppniseftirlit. Í ályktuninni kemur fram að til þess að það geti orðið verði Fjarskiptastofnun að ráða í 2--3 stöðugildi og svipaðan fjölda hjá Samkeppnisstofnun til að eiga við þennan málaflokk. Nefndin lagði sérstaka áherslu á að þetta yrði að gera til þess að samkeppni yrði í málaflokknum.

Í framhaldi af þessu er rétt að spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi farið að tilmælum nefndarinnar og fjölgað starfsmönnum til að sinna málaflokknum. Hér er nefnilega um mjög mikilsverðan málaflokk að ræða sem stjórnvöld verða að búa til góða umgjörð um þar sem tryggt verði að heiðarleg samkeppni ríki. Í framhaldi af fyrri umræðu er rétt að spyrja ráðherra hvort fyrirhuguð fjölgun geti ekki þess vegna orðið úti á landi.