Samkeppnisstofnun

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:26:01 (6849)

2004-04-27 15:26:01# 130. lþ. 104.6 fundur 721. mál: #A Samkeppnisstofnun# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Á þskj. 1070 hefur hv. 10. þm. Norðvest. Sigurjón Þórðarson beint til mín tveimur spurningum um Samkeppnisstofnun. Til svars við fyrri spurningunni sem er í þremur liðum var aflað upplýsinga hjá Samkeppnisstofnun. Rétt er að taka fram að svörin miðast við dagsetningu fyrirspurnarinnar, þann 10. mars sl. Í fyrsta lagi er spurt hversu mörg mál hafi borist Samkeppnisstofnun frá 29. janúar 2003 til þess dags.

Markaðsmálasviði hefur borist alls 181 erindi á umræddu tímabili.

Samkeppnissviði hafa borist 124 erindi á því rúmlega ári sem liðið er síðan bókun samkeppnisráðs um forgangsröðun var samþykkt.

Auk hinna formlegu erinda hefur stofnuninni borist fjöldi óformlegra fyrirspurna og athugasemda í tíma eða með tölvupósti sem svarað hefur verið eftir föngum, jafnframt því sem unnið hefur verið að málum sem rekin hafa verið fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og dómstólum.

Í öðru lagi er spurt hversu mörg mál hafi verið sett í bið.

Bókun samkeppnisráðs um forgangsröðun verkefna frá 29. janúar 2003 tekur ekki til mála á markaðsmálasviði og hefur því ekkert mál verið sett í bið með vísan til bókunar samkeppnisráðs.

Málsmeðferð 24 erinda hefur formlega verið frestað með vísan til bókunar samkeppnisráðs um forgangsröðun mála hjá samkeppnissviði. Nú eru 69 mál ýmist í málsmeðferð hjá samkeppnissviði Samkeppnisstofnunar eða í biðstöðu.

Þá er spurt hversu langur biðtími sé að jafnaði.

Þó að spurningin vísi til forgangsröðunar og eigi því ekki við um markaðsmálasvið svarar eftirfarandi þessu að einhverju leyti: Alls eru nú 46 mál óafgreidd á markaðsmálasviði og skiptast þau þannig eftir móttöku þeirra: Árið 2002 4 mál, árið 2003 29 mál, árið 2004 13 mál. Málsaðilum flestra ofangreindra óafgreiddra mála hefur verið tilkynnt um töf á afgreiðslu sökum mikils fjölda mála í meðferð.

Erfitt er að leggja mat á meðalbiðtíma mála hjá samkeppnissviði Samkeppnisstofnunar. Sá tími sem frestun hefur varað helgast af því hvenær erindi hafa borist. Þannig geta mál sem bárust samkeppnissviði í febrúar 2003 hafa verið í biðstöðu vegna forgangsröðunar í 13--14 mánuði en mál sem bárust í febrúar sl. í 1--2 mánuði. Til glöggvunar má benda á að þau mál sem nú eru til meðferðar eða í biðstöðu hjá samkeppnissviði bárust stofnuninni eða hófust sem hér segir eftir árum: Árið 1997 1 mál en því lýkur á næstunni, það er tryggingamálið. Árið 2001 2 mál, árið 2002 12, árið 2003 30, árið 2004 24.

Síðari spurning þingmannsins hljóðar svo: Telur ráðherra að efla þurfi Samkeppnisstofnun?

Svarið er eftirfarandi: Samkeppnisstofnun gegnir lykilhlutverki í að efla og standa vörð um frjálsa samkeppni með þjóðarhag að leiðarljósi. Miklar hræringar í atvinnulífinu, aukin samþjöppun eignarhalds og fækkun fyrirtækja á þjóðhagslega mikilvægum mörkuðum gera starf stofnunarinnar sífellt umfangsmeira og flóknara og til hennar eru gerðar æ meiri kröfur. Ég tel nauðsynlegt að efla starfsemi Samkeppnisstofnunar og hef beitt mér fyrir því síðan ég settist í stól viðskrh. Þannig hafa fjárveitingar til stofnunarinnar aukist úr 118,7 millj. kr. árið 2000 í 157,3 millj. kr. á fjárlögum ársins 2004. En meira þarf að koma til og vænti ég þess að skilningur sé fyrir því að styðja enn frekar við bakið á Samkeppnisstofnun.