Starfsskilyrði loðdýraræktar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:55:13 (6862)

2004-04-27 15:55:13# 130. lþ. 104.7 fundur 763. mál: #A starfsskilyrði loðdýraræktar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka umræðuna og þann áhuga sem fram kemur hjá hv. þm. um málefnið, loðdýraræktina, og ítreka það sem ég sagði í fyrstu ræðu minni að vandinn er heilmikill þó að auðvitað beri fyrst og fremst að virða og viðurkenna að þessir bændur hafa farið mjög vel í gegnum mál sín á síðustu árum. Ríkisvaldið hefur komið til móts við þá aftur og aftur með skuldbreytingum og aðstoð við greinina, sem var mikilvægt. Ég tel að síðustu árin hafi þeir gert þetta af enn meiri fagmennsku en oft áður og verið í góðu samstarfi við nágrannalöndin þannig að mér finnst möguleikar þeirra vera heilmiklir.

Ég hygg að það sé rétt sem kom fram í máli hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar að það sem menn þurfa að fara yfir, og ég gat um í ræðu minni, eru auðvitað fóðurstöðvarnar, hvernig þær eru reknar og hvernig fóðurs er aflað og hvað það kostar. Bændurnir hafa einnig verið að stækka bú sín og gera þau hagkvæmari í greininni þannig að það hefur verið að skila árangri.

Hvað varðar verðmun hér og annars staðar þá er, eins og kom fram í ræðu minni, hráefnisverð til fóðurframleiðslunnar mun lægra hér en í nágrannalöndunum --- Danir sækja hráefni sitt hingað að hluta til, það er gott og einstakt hráefni --- en þrátt fyrir það stöndum við frammi fyrir því að þegar það kemur til bóndans er það upp í 55% af skinnaverðinu en er hæst 34% í samkeppnislöndunum. Nefndin er að fara yfir þetta.

Ég legg áherslu á að bændurnir hafa náð gríðarlegum árangri í frjósemi dýranna. Stærð skinnanna og fóðrið er grundvallaratriðið í búskapnum og svo það náttúrlega að dollarinn hefur skekkt myndina hvað afkomuna varðar. En nefndin mun eins og ég hef áður sagt skila af sér á næstu dögum og þá verður farið yfir þessi mál á nýjan leik.