Slátrun alifugla

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:57:47 (6863)

2004-04-27 15:57:47# 130. lþ. 104.8 fundur 900. mál: #A slátrun alifugla# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. landbrh. um slátrun alifugla. Spurningarnar eru svohljóðandi:

1. Hve mörg alifuglasláturhús hér á landi taka aðra alifugla en hænsn til slátrunar, svo sem aligæsir, aliendur, alidúfur og fasana?

2. Hvernig hyggst ráðherra beita þeirri heimild í reglugerð um alifuglasláturhús ,,að setja sem skilyrði, að leyfishafa sé skylt að annast slátrun fyrir þá alifuglabændur sem þess óska, enda þótt þeir eigi ekki aðild að viðkomandi sláturhúsi``?

Herra forseti. Fjölbreytni í atvinnulífi og atvinnurekstri í smáum og stórum einingum jafnt líka í matvælaframleiðslu, er hluti af auðlegð landsins. Anda- og gæsarækt hefur lengi verið hér nokkur, oftast þó í smáum einingum og sem aukabúgrein. En hún hefur aukið á fjölbreytni í matarframboði og auk þess veitt þeim sem reka hana nokkrar tekjur. Áhugasamir einstaklingar hafa jafnvel flutt inn fugla og hafið dúfueldi eða fasanaeldi, auk anda- og gæsaeldis sem hér hefur lengst af verið. Það er náttúrlega mikilvægt að slátrun og meðferð þessara dýra sé með þeim hætti sem lög kveða á um. En á síðustu árum hafa mál þróast með þeim hætti að sláturhús sem hafa tekið þessa fugla áður, kjúklingasláturhús, hafa færst á örfárra hendur og orðið í eigu aðila sem jafnframt reka framleiðslu á kjúklingum. Þeir hafa nú á undanförnum missirum, það ég best veit, lokað eða verið afar tregir og jafnvel lokað á minni framleiðendur og ekki gefið þeim kost á að kaupa slátrun við þær aðstæður.

Nú hefur ráðherra ákveðna heimild í reglugerð til þess að skilyrða starfsleyfi þessara sláturhúsa í því að skylda þau til þess að taka til slátrunar fugla frá öðrum framleiðendum þó svo að þeir eigi ekki beina eignaraðild að sláturhúsinu.

Mat mitt er að það sé afar mikilvægt að þessi krafa sé virk og að landbrn. hugi að því með hvaða hætti það getur styrkt og stutt við sem fjölþættasta framleiðslu í landbúnaði, t.d. anda- og gæsarækt eins og ég hef minnst á, og hæstv. landbrh. hefur einmitt á þinginu í vetur getið sérstaklega áhuga síns á því að auka fjölbreytni í landbúnaði og ekki síst í hinum minni einingum og þá í heimaöflunarbúskap. Ég hef nú gert grein fyrir spurningum mínum til hæstv. landbrh.