Slátrun alifugla

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:11:38 (6869)

2004-04-27 16:11:38# 130. lþ. 104.8 fundur 900. mál: #A slátrun alifugla# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það að núverandi ástand stendur þessum búgreinum, hvað þessar fuglategundir varðar, dálítið fyrir þrifum. Ég get tekið undir með hv. þm. Drífu Hjartardóttur hvað það varðar að auðvitað verða þeir sem ætla að gera þetta að atvinnu sinni að huga að slátruninni áður en lagt er af stað. Huga verður að því hvernig þeir ætla að koma vörunni til neytenda og hvar þeir ætla að slátra fuglunum.

Ég sagði áðan að ég treysti mér ekki til að setja reglugerð og skylda kjúklingasláturhúsin til að taka þessar tegundir inn á sig í ljósi þess sem gæti í kjölfarið komið upp í slíkum húsum, þ.e. kampýlóbakter eða salmonella. Slík sýking er mjög þrálát og mjög erfitt að eiga við hana. Kjúklingabændur hafa tekið vel á vanda sínum. Þeir hafa orðið fyrir miklum áföllum af þessu tagi og ríkið hefur komið þeim til hjálpar í þeim efnum. Ég hygg að árið 2000 hafi síðast orðið slíkt áfall. En það er mjög erfitt að skylda húsin til að taka við þessari grein, sem er enn áhættusamari varðandi sýkingar.

Ég hygg að rækt af þessu tagi sé ekki rekin sem stór búskapur í dag. Auðvitað er til heimaslátrun. Hún er lögleg og menn geta borðað afurðir sínar sjálfir. Þannig er það kannski yfirleitt. Við seljum villta fugla í verslunum. Það er annar handleggur. Eru þeir hreinir af þessu? Þetta eru allt saman spurningar.

Ég segi fyrir mig að ég held að þeir sem þennan atvinnurekstur stunda þurfi að standa saman eins og menn gera í atvinnurekstri og koma sér upp snoturri aðstöðu sem stenst kröfur heilbrigðisyfirvalda og neytenda, þar yrði þessum dýrum fargað til neyslu. Ég sé í raun engar aðrar leiðir í þessu máli.