Markaðssetning lambakjöts innan lands

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:20:46 (6872)

2004-04-27 16:20:46# 130. lþ. 104.9 fundur 902. mál: #A markaðssetning lambakjöts innan lands# fsp. (til munnl.) frá landbrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur að innlendi markaðurinn er mjög mikilvægur, en jafnframt er mjög þýðingarmikið að halda áfram því ágæta starfi sem hefur verið unnið í útflutningnum. Eins og fram kom hjá hæstv. landbrh. hefur salan verið að aukast á Bandaríkjamarkaði, Ítalíu, Danmörku og víðar og þeir sem selja afurðirnar eru að byrja meira samstarf en verið hefur.

Ég vil nefna hvað það var skemmtilegt að fylgjast með Food and Fun hátíðinni í vetur. Gríðarleg þátttaka var meðal erlendra aðila sem komu hingað til lands og blaðamenn skrifuðu um hátíðina. Jafnframt því hefur Áform verið að auglýsa Ísland sem gott land að sækja heim.