Kröfur til sauðfjársláturhúsa

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:36:46 (6879)

2004-04-27 16:36:46# 130. lþ. 104.10 fundur 903. mál: #A kröfur til sauðfjársláturhúsa# fsp. (til munnl.) frá landbrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:36]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég held að ástæða sé til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann ætli að beita sér fyrir því að til verði tvenns konar reglur hér eða að með einhverjum hætti verði hægt að liðka fyrir því að hægt verði að halda uppi slátrun í minni húsum og þjónustu við fólk sem bændur geti annast sjálfir. Það er ástæða til að minna á að í einhverri skýrslu sem ég sá kom fram að það væru á annað þúsund bændur í Danmörku sem hefðu leyfi til þess að selja afurðir sínar sjálfir. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að bændur fái möguleika til þeirra hluta og ég held að það sé mjög vaxandi áhugi fyrir því að skoða þann möguleika. Og mér finnst ástæða til þess að hæstv. ráðherra beiti sér einarðlega fyrir því að liðka fyrir möguleikum bænda til að auka þjónustu sína og veita hana beint.