Aðlögun mjólkuriðnaðar að kröfum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:57:28 (6890)

2004-04-27 16:57:28# 130. lþ. 104.11 fundur 904. mál: #A aðlögun mjólkuriðnaðar að kröfum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:57]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Ég tel að grænar greiðslur geti aldrei leyst af hólmi framleiðslutengdan stuðning við landbúnað heldur verði það að vera einhvers konar viðbót. Í raun eru grænar greiðslur úreldingarstyrkir þegar til lengdar lætur og eins og kom fram áðan í umræðunni eru samningarnir sem við höfum mjög gegnsæir. Núna hefur Evrópusambandið breytt stefnu sinni varðandi mjólkurframleiðsluna og hefur aukið framleiðslutengdan stuðning.

Mig langar aðeins að geta þess að í Bændablaðinu er mjög athyglisverð grein um viðhorf norsku bændasamtakanna til alþjóðasamninga um búvöruviðskipti. Þau telja að aðild að Evrópusambandinu yrði enn þá örlagaríkari fyrir norska bændur heldur en nýr WTO-samningur sem þeir telja þó að muni hafa mjög mikil og skaðleg áhrif á norskan landbúnað, að þar muni draga allverulega úr framleiðslunni sem mun aðeins verða að framleiða mjólk og grænmeti.