Aðlögun mjólkuriðnaðar að kröfum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:58:46 (6891)

2004-04-27 16:58:46# 130. lþ. 104.11 fundur 904. mál: #A aðlögun mjólkuriðnaðar að kröfum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir þau svör sem hann færir hér fram. Hann sagði í upphafsorðum sínum að hann hefði grun um að samningar WTO væru á leið út af borðinu, eins og hann orðaði það. Að vísu náðist ekki sá árangur sem búist var við á síðasta fundi WTO en engu að síður er búið að setja á fund í Kanada á næsta hausti, eftir því sem mér er best kunnugt.

Ég vona að það verði ekki stórveldahrammur sem gerir það að verkum að ekki verði hægt að komast að niðurstöðu í þessum WTO-samningum. Það er mikilvægt að niðurstöður fáist í þau mál. Ég er hins vegar alveg á því að þeir samningar geti verið mjög afdrifaríkir fyrir íslenskan landbúnað. Einmitt þess vegna tel ég að við þurfum að skoða vel hvað gerist í öðrum löndum til að búa okkur undir það sem vænta má.

Ef Evrópusambandið með alla þá fjölbreytni sem þar er innan borðs telur sig þurfa margra ára undirbúning undir WTO-samninga þá held ég að það sé klárt að við Íslendingar þurfum einnig slíkan undirbúning. Við föllum að vísu í heild undir það sem kallast jaðarsvæði en við verðum líka að skoða hvað verið er að gera og hvað Evrópusambandið telur sér leyfilegt að gera á jaðarsvæðum til að við getum tekið það til fyrirmyndar við undirbúning okkar.