Stefnumótun í mjólkurframleiðslu

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:03:16 (6893)

2004-04-27 17:03:16# 130. lþ. 104.12 fundur 905. mál: #A stefnumótun í mjólkurframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:03]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Í nýlegri skýrslu um stöðumat og stefnumótun í mjólkurframleiðslu kennir margra grasa og mikilvægar upplýsingar dregnar saman á einn stað. Þar er m.a. fjallað um samkeppnismál og dregið fram að réttaróvissa ríki um starfsemi mjólkuriðnaðarins. Samkeppnisstofnun hefur gefið út það álit að ákvæði búvörulaga nr. 99/1993 samrýmist ekki ákvæðum samkeppnislaga nr. 8/1993 en á það hefur ráðuneytið ekki fallist.

Talsmenn mjólkuriðnaðarins telja að árangur sá sem náðst hefur undanfarin ár byggist á verkaskiptingu samlaganna og verðtilfærslu milli afurðaflokka. Ákvæði um verðlagningu verðlagsnefndar á mjólk og mjólkurvörum var frestað til 1. júní 2004 og fer því hver að verða síðastur til að taka til nauðsynlegra og viðeigandi ráða. Ég spyr því hæstv. landbrh.: Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa í kjölfar skýrslu um stöðumat og stefnumótun í mjólkurframleiðslu?