Stefnumótun í mjólkurframleiðslu

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:04:33 (6894)

2004-04-27 17:04:33# 130. lþ. 104.12 fundur 905. mál: #A stefnumótun í mjólkurframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:04]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað mjög einfalt mál að svara því, þ.e. að samningar við Bændasamtökin og Landssamband kúabænda gangi áfram. Þær samningaviðræður eru nú í fullum gangi. Hins vegar var þessi fallega skýrsla um stöðumat og stefnumótun í mjólkurframleiðslu mjög mikilvæg og tók nokkuð langan tíma í vinnslu. Ég lagði upp úr því að aðilar vinnumarkaðarins færu yfir þann samning sem er í gildi og hefur gilt síðan 1997 og mundu meta hann til framtíðar. Alþýðusambandið var á tímabili komið út úr þessu samstarfi en þeir eru komnir inn aftur. Þessi skýrslugerð og stefnumótun tók lengri tíma en ég ætlaði, en um hana varð samkomulag. Þeir benda á annmarka samningsins og kosti hans og fjalla um stöðu mjólkurframleiðslunnar. Í framhaldi af því er ekkert annað að gera, til að skapa vissu og gera framtíð mjólkurframleiðslunnar sem öruggasta, en reyna að ljúka sem fyrst nýjum samningi við kúabændur.

Hv. þm. minnist á réttaróvissu sem ríkir um verðlagningu mjólkur. Þegar bændur gerðu þennan síðasta mjólkursamning féllust þeir á að verðlagning yrði frjáls í heildsölu á mjólkurvörum en töldu að skipulag mjólkuriðnaðarins gæti staðið áfram og að hægt væri að reka hann í því samstarfi sem hann hefur verið og undir þeirri félagshyggju. En Samkeppnisstofnun hefur talið að allur mjólkuriðnaðurinn færi þá undir samkeppnislög. Þetta hefur skapað réttaróvissu. Þetta kom fulltrúum ríkisvaldsins og ekki síður bændanna á óvart þannig að nú eru prófessorarnir Eiríkur Tómasson og Árni Vilhjálmsson að fara yfir þessi atriði og munu fljótlega skila mér skýrslu um þau. En ég hef lagt mikla áherslu á að opinber verðlagning hefur skilað því að það hefur gerst fyrir opnum tjöldum með einföldum hætti hvernig mjólk er verðlögð. Þessar vörur hafa hækkað minna, eins og ég hef vakið athygli á, en margt annað á Íslandi síðustu fimm árin.

Ég hef talið mjög mikilvægt að mjólkuriðnaðurinn sem er einhver fallegasti sproti iðnaðarins á Íslandi í dag og framsæknasti geti starfað undir sínu skipulagi. Þar fer fram örlítil verðtilfærsla. Svona um það bil 500 millj. kr. fara í verðtilfærslu af 10 milljörðum til þess að hægt sé að framleiða hina dýru vöru undir einhverju skipulagi og allir séu ekki að framleiða þá vöru sem best borgar sig og fer fyrst út á markaðinn í dagvörunum. Þess vegna hefur þetta mikla samstarf verið farsælt innan mjólkuriðnaðarins.

Ég hef vakið athygli á því og vonast til að samstaða verði um að mjólkuriðnaðurinn geti starfað áfram með svipuðum hætti og að samstaða náist um verðlagningu mjólkur sem allra fyrst. Það kemur fram að nefndin sem gerði skýrsluna er mér sammála um að við þessar aðstæður væri ekki rétt að breyta um kerfi heldur fá niðurstöðu í það hvernig mjólkuriðnaðurinn getur starfað. Ég er þakklátur fyrir að hafa aðila vinnumarkaðarins á bak við mig í þessari skoðun hvað það varðar að menn verða að komast þarna að niðurstöðu.

Svo hef ég vakið athygli á því, hæstv. forseti, að mjög hefur komið í ljós að margir aðilar, ekki síst hinar smærri verslanir, smærri keðjur með örlítið brot af smásöluverslun á Íslandi, telja horft til framtíðar með skipulagi mjólkuriðnaðarins. Jafn aðgangur stóra risans og þess litla til að sækja mjólkurvörurnar gerir það að verkum að þeir geta rekið verslanir sínar, geta boðið viðskiptavinum sínum upp á sambærilegt verð og þeir stóru. Í mörgum löndum og hér á sumum sviðum fá þeir litlu ekki einu sinni frá birgjum sambærilegt verð og þeir sjá í stóru keðjunum. Þannig hafa þeir stóru fengið á mörgum sviðum forgjöf og það stóran afslátt að erfitt er að keppa við þá í gegnum þau samkeppnislög sem við búum við og það samkeppnisform sem hér tíðkast.

En stærsta málið er að mjólkursamningar líti dagsins ljós sem fyrst í anda þessarar skýrslu um stöðumat og stefnumótun í mjólkurframleiðslu.