Afkoma mjólkurframleiðenda

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:18:25 (6899)

2004-04-27 17:18:25# 130. lþ. 104.13 fundur 906. mál: #A afkoma mjólkurframleiðenda# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:18]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil minna á að afkoma mjólkurframleiðenda er góð og hefur auðvitað farið batnandi á síðustu árum og ég tel þess vegna ekki þörf á að grípa til neinna sérstakra aðgerða þar hvað það varðar af hálfu ríkisvaldsins. Það hefur verið mikið kapp í atvinnugreininni og það er rétt sem hv. þm. segir að fram kemur að skuldir hafa tvöfaldast. Búin hafa verið að stækka mjög. Margt hafa bændur verið að gera mjög vel, t.d. hvað heyfeng varðar. Íslenska kýrin hefur eflst mjög á síðustu árum og ef ég veit rétt hefur meðalnytin á tíu ára tímabili hækkað úr rúmum 4 þús. lítrum að meðaltali yfir 5 þús. lítra og við sjáum afburðabú þar sem kýr mjólkar upp í 7.500 lítra að meðaltali þannig að það hefur ríkt mikið kapp meðal bænda um að bæta rekstur sinn á öllum sviðum hvað mjólkurkúna varðar og ekki síður hvað heyfeng og allan rekstur varðar.

En ég get tekið undir það að ég hef látið í ljós áhyggjur af skuldaþróuninni og tel auðvitað mjög mikilvægt að fara yfir það í núverandi samningi hvers vegna það á sér stað. Er hagstætt til framtíðar horft að t.d. mjólkurkvótinn seljist svo dýrt á milli manna eins og hann gerir? Er það eðlilegt til framtíðar að við seljum lítrann á 250--300 kr. og það sé atvinnugreinin sjálf sem tekur alla þessa hagræðingu á sínar herðar? Unga fólkið í greininni sem ætlar að stunda mjólkurframleiðslu hleður á sig skuldum til þess að hagræða. Ég hef þess vegna velt því fyrir mér hvort nýr samningur þurfi ekki að skila einhverjum breytingum á þeim vanköntum sem á núverandi samningsfyrirkomulagi eru til að sjá slíka niðurstöðu breytast, til þess að bændurnir eigi auðveldara með að mæta kannski meiri samkeppni erlendis frá þegar WTO-samningarnir verða fullkláraðir.

Hvað afurðastöðvar varðar hafa þær verið mjög vel reknar og flestar þeirra í sérfyrirtækjum eru mjög vel reknar þó að í einhverju tilfelli hafi kannski farið svo að peningar fóru út úr afurðastöð eins og fyrir norðan, á Akureyri, og inn í annað og bændurnir þar og afurðastöðin verr sett vegna þess hvernig það mál þróaðist allt saman. Ég hef sagt það hér og segi enn að Kaldbakur á auðvitað að skila Norðurmjólk fé sínu til baka. Um síðustu áramót varð t.d. ekki hækkun til afurðastöðvanna. Þær tóku á sig verðþróunina og þær hafa verið sterkar, en ég tek undir það að samt sem áður er möguleiki til hagræðingar innan þeirra enn til þess að lækka verð til neytenda.

Hvaða aðgerðir ég tel líklegastar til að skila neytendum hagstæðara verði þá er það auðvitað sama þróun áfram, þ.e. góður búrekstur og hagræðing á búunum upp að einhverju marki. Ég er kannski sömu skoðunar þar og þingmennirnir í sláturhúsunum, að ég tel að stærðin ein skili því ekki og þess vegna eigi menn ekki að loka augunum fyrir blönduðum búum og meðalstórum búum. Kannski skila þau fjölskyldunum í sveitinni bestri afkomu í dag. Ég hef auðvitað áhyggjur af því að það verði of fáir sem stunda þennan atvinnuveg því að mjólkurframleiðslan er náttúrlega burðaratvinnuvegur í íslenskum sveitum í dag og langsterkasta greinin. Ég er bjartsýnn á að nýr samningur líti dagsins ljós sem skili því hvoru tveggja að bændurnir standi sterkari á eftir og að meginniðurstaða skýrslunnar, þ.e. að neytendur megi í kjölfar þess samnings og þeirrar þróunar sem væntanleg er á samningstímanum líta það að íslenskar mjólkurvörur halda samkeppnishæfni sinni í veröldinni eins og þær gera má segja hvað gæði varðar, en verð lækki til neytenda.