Afkoma mjólkurframleiðenda

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:24:54 (6901)

2004-04-27 17:24:54# 130. lþ. 104.13 fundur 906. mál: #A afkoma mjólkurframleiðenda# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:24]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin. Mér þótti ágætt að hann nefndi á nafn fyrirtækin sem ég átti við þegar ég talaði um að flutt hefði verið fjármagn frá afurðastöðvum í óskyldan rekstur, þ.e. frá Norðurmjólk í Kaldbak, en þar mun vera um heilan milljarð að ræða og það er ekki eina dæmið um að fjármagn hafi verið tekið út úr afurðastöðvunum og sett í ólíkan rekstur. Þarna tel ég að athuga þurfi í nýjum samningum hvort ekki þurfi að setja fyrir slíkan leka af því að slíkur gjörningur hlýtur að koma niður á möguleikum viðkomandi fyrirtækja til þess að skila ódýrri vöru til neytenda. Það hlýtur að vera takmark stuðnings ríkisvaldsins við bændur og afurðastöðvar að skila sem bestum og ódýrustum vörum til neytenda. Ég tel að farið hafi verið út fyrir það sem rétt er í þessum gjörningi og í þeim tilfellum öðrum þegar fé hefur verið tekið út úr stöðvunum.

Mér finnst við hafa átt ágætisviðræður um landbúnaðarmál í dag, ég og hæstv. ráðherra og þeir þingmenn aðrir sem hafa tekið þátt í viðræðunum, og ég vil þakka þær og vonast til að við getum átt gott samstarf við vinnu að samningunum sem væntanlegir eru.