Strandsiglinganefnd

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:40:35 (6907)

2004-04-27 17:40:35# 130. lþ. 104.14 fundur 811. mál: #A strandsiglinganefnd# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:40]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim ágætu hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni fyrir góð innlegg.

Ég minni hæstv. ráðherra á að hann beitti sér fyrir því, fyrir nokkrum árum, að gerð yrði úttekt á flutningskostnaði á landinu. Þá kom fram sá gríðarlegi aðstöðumunur sem er eftir búsetu hvað flutningskostnaðinn varðar. Vestur á Ísafirði minnir mig að hann hafi leitt til 70% hækkunar á vöruverði. Hækkunin var a.m.k. gríðarlega mikil, um 70% á stuttum tíma. Það gerðist einmitt á meðan strandsiglingar voru að skreppa saman.

Ég tel mikilvægt að markvisst verði farið í þetta mál. Það er vitað að sjóflutningar hafa marga kosti umfram landflutninga. Af þeim er minni mengun, minna slit á vegum og meira öryggi þótt ákveðnar vörur verði ávallt fluttar á landi vegna flýtisins. Hins vegar eru aðrir vöruflokkar sem ekki þurfa svo mikinn flýti auk þess sem siglingar taka heldur ekki svo langan tíma. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta sé skoðað.

Eitt vil ég nefna til viðbótar varðandi ferjuna Baldur. Nú er vitað að hún er að verða mjög vinsæl, sérstaklega að sumrinu, til að flytja fólk og fleira. Hún annar ekki þeirri eftirspurn. Hún er einmitt liður í að byggja upp flutningsnet meðfram ströndum landsins, bæði fyrir vörur og fólk. Ég vil því í lok máls míns að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé kominn tími til að stækka og auka afkastagetu ferjunnar Baldurs.